- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
„Númer eitt, tvö og þrjú sjáum við ávinning í því að sameinast í stærra félag en ekki síður er það mikilvægt í okkar huga að standa að stóru og öflugu stéttarfélagi opinberra starfsmanna á landsbyggðinni. Við vissum líka að við værum að ganga til liðs við félag sem hefur verið vel rekið og í forystuhlutverki fyrir bæjarstarfsmannafélögin innan BSRB í síðustu kjarasamningum,“ segir Helga Hafsteinsdóttir, fyrrverandi formaður Starfsmannafélags Dala og Snæfellsnessýslu (SDS),um sameiningu félagsins við Kjöl stéttarfélag. Á aðalfundi SDS þann 21. október var tillaga um sameininguna samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Umhverfið sífellt harðara
„Þegar við fórum á sínum tíma að horfa í kringum okkur eftir valkostum til sameiningar þá horfðum við til sameiningar við annað félag á landsbyggðinni. Eftir fyrsta viðræðufund stjórna SDS og Kjalar vorum við sannfærð um að með sameiningu myndum við styrkja stöðu okkar félagsmanna og næðum best okkar markmiðum með sameiningu við Kjöl. Við erum þess vegna mjög ánægð með niðurstöðuna. Starfsumhverfi okkar er allt annað en á höfuðborgarsvæðinu og þess vegna eigum við meiri samleið með öðru landsbyggðarfólki í sömu hagsmunabaráttu og áþekku starfsumhverfi,“ segir Helga. Hún segir að bæði í kjarasamningagerð og úrlausn ágreiningsmála sem snerti kjarasamninga þá verði sífellt erfiðara fyrir fámennt stéttarfélag í héraði að annast þessi verkefni.
„Umhverfið er að breytast og verða mun harðara. Það kallar óþægilega oft á að við þurfum á lögfræðilegum stuðningi að halda í réttindabaráttunni og þess vegna þurfum við bakland í stærra félagi og sterkari faglegum grunni,“ segir Helga.
Fleiri orlofskostir í stærra félagi
Starfsmannafélag Dala og Snæfellsnessýslu var stofnað árið 1987 og voru virkir félagsmenn við sameininguna um 380 manns. Helga segir um að ræða bæjar- og heilbrigðisstarfsfólk í fjórum sveitarfélögum. Hún segir grundvallaratriði að við sameininguna haldi félagsmenn öllum sínum áunnu réttindum óskertum. Sameiningin sé til þess að bæta þjónustuna og réttarstöðu félagsmanna. Skrifstofan verði áfram opin í Grundarfirði. Kjölur sé deildaskipt félag og félagssvæði SDS falli undir svæðisdeild Dala og Snæfellsness. Fulltrúi frá hverri svæðisdeild muni ávallt eiga sæti í stjórn Kjalar og trúnaðarmannaráð hafi mikilvægu hlutverki að gegna innan Kjalar.
„Þar fyrir utan snýst áhugi félagsmanna okkar um orlofsmálin sem er að mínu mati eðlilegt í ljósi þess að félagsmenn eru að stærstum hluta konur í þjónustu- og umönnunarstörfum sem eru láglaunastéttir. Þá skipir miklu máli að hafa aðgang að hagstæðum orlofskostum í gegnum stéttarfélagið til að hafa tök á því að gera sér dagamun í orlofi. Við sameininguna í Kjöl verða talsvert færri um hverja orlofseign þannig að félagsmenn eru að fá bæði fjölbreyttari valkosti og meiri möguleika til að fá úthlutun,“ segir Helga.
Kjölfesta - mars 2024
Fjallað er um starfsemi félagsins á liðnu ári ásamt því sem rætt er við félagsfólk í fjölbreyttum störfum.