Veikindaréttur - full og hlutaveikindi

 Ákvæði um veikindarétt samkvæmt kjarasamningum Kjalar - smellið hér: Veikindaréttur

Hér er fjallað um ákvæði sem forstöðumenn eða yfirmenn hafa heimild til að leyfa að starfsmaður vinni skert starf að læknisráði. 

Grein 12.2.10 í kjarasamningum félagsins við ríki og sveitarfélög hljóðar svo:

12.2.10
Ef starfsmaður að læknisráði og með leyfi forstöðumanns vinnur skert starf vegna slyss eða veikinda, skal miða greiðslu veikindalauna fyrir dagvinnu við það starfshlutfall sem vantar á að hann sinni fullu starfi.

Talning veikindadaga starfsmanns sem vinnur skert starf vegna slysa eða veikinda (hlutaveikinda) skal þannig framkvæmd að skilja að talningu líkt og um tvo starfsmenn væri að ræða, sem gegna hvor sínu hlutastarfinu, annar er veikur en hinn frískur. Telja skal veikindadaga hjá hinum veika miðað við hlutfall veikindalauna en sá fríski ávinnur sér veikindarétt í samræmi við unnið starfshlutfall. 

Þetta er heimildarákvæði sem forstöðumaður ákveður hvort hann nýtir eða ekki eins og áður sagði. Einnig skal áhersla á það lögð að hér er alltaf um tímabundna ráðstöfun að ræða. Upphaflega var heimildin til þess hugsuð að starfsmaður sem verið hefði frá í lengri tíma vegna veikinda eða slyss, fengi aðlögunartíma er hann kæmi aftur til starfa og gæti í áföngum tekið upp fullt starf að nýju, t.d. með því vinna hálft starf fyrstu vikurnar. Þetta er í raun heimild vinnuveitanda til að veita tímabundinn afslátt frá uppfyllingu vinnuskyldu og gildir aðeins á tímabilum þegar vinnuskylda er innt af hendi, þ.e. fellur niður í orlofstöku og annarri fríatöku.

Talning á orlofsstundum í orlof hjá starfsmanni sem fær leyfi til að vinna skv. gr. 12.2.10 eða 6.4.6 (hlutaveikindi).
Hvort orlofstakan eigi að teljast að fullu til orlofs eða skiptast á milli veikinda og orlofs. Það er útilokað að starfsmaður teljist að hálfu veikur og að hálfu frískur í orlofi. Svarið er að fríið telst að fullu til orlofstöku nema læknir votti að starfsmaður geti ekki notið orlofs en þá telst fríið að fullu til veikinda. Verði slíkt rof í notkun umræddrar heimildar er einsýnt að endurskoða þarf framhald þess samkomulags sem gert var um vinnu í skertu starfi.