Ýmsar spurningar

Á þessari síðu er að finna ýmsar upplýsingar um réttindi og skyldur á vinnumarkaði, s.s. um rétt til launa í veikindum, orlofsrétt, uppsagnir o.fl. sem borist hafa félaginu.

Finnir þú ekki svar við þinni spurnignu hér á síðunni getur þú sent okkur fyrirspurn á mínum síðum eða á kjolur(hjá)kjolur.is

Laun til maka látins starfsmanns

12.5 Lausnarlaun og laun til maka látins starfsmanns

12.5.1 Þegar starfsmaður er leystur frá störfum skv. gr. 12.4.1-12.4.3, skal hann halda föstum launum skv. gr. 12.2.6 í 3 mánuði.

12.5.2 Sama gildir um greiðslu vegna látins starfsmanns ef hinn látni var í hjúskap, staðfestri samvist, skráðri sambúð eða sambúð sem að öðru leyti má jafna til hjúskapar í merkingu 49. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007.

12.5.3 Þegar starfsmanni er veitt lausn skv. gr. 12.4.1-12.4.3 eða hann andast, skal greiða laun hans, svo sem ella hefði verið gert, til loka lausnar- eða andlátsmánaðar áður en laun skv. gr. 12.5.1 -12.5.2 koma til álita. Þetta á þó ekki við ef launagreiðslum hefur áður lokið, t.d. vegna þess að réttur til launa í veikindum skv. gr. 12.2.1-12.2.10 var tæmdur.

Hver er réttur félagsmanna vegna fráfalls náins ættingja eða forfalla vegna fjölskylduaðstæðna?

Réttur starfamann sveitarfélaga:

11.4.1 Við andlát nákomins ættingja/aðstandanda skal starfsmaður ef nauðsyn krefur eiga rétt á allt að hálfs mánaðar fríi á mánaðarlaunum skv. gr. 1.1.1 í kjarasamningi auk fastra greiðslna svo sem fyrir yfirvinnu, vakta-, gæsluvakta- og óþægindaálag og greiðslu fyrir eyður í vinnutíma enda sé um að ræða fyrirfram ákveðinn vinnutíma samkvæmt reglubundnum vöktum eða reglubundinni vinnu starfsmanns.

Sorgarorlof

Sorgarleyfi er fyrir foreldra á vinnumarkaði sem verða fyrir því að missa barn undir 18 ára. Lög um sorgarleyfi gilda frá 1. janúar 2023 og eiga við foreldra sem verða fyrir barnsmissi 1. janúar 2023 eða síðar, sbr. lög um sorgarleyfi nr. 77/2022
Sjá hér nánar 

Réttur ríksstarfsmanna:

Frá árinu 2005 hefur verið í gildi samkomulag við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs við Kjöl stéttarfélag um að almennt skuli litið svo á að við fráfall maka eða barns ríksstarfsmanns skuli veita honum allt að tveggja vinnuvikna fjarvist frá vinnu án skerðingar launa. 

Fjarvera vegna veikinda barna

Foreldri hefur heimild til að vera frá vinnu í samtals 12 vinnudaga á hverjum 12 mánuðum vegna veikinda barna sinna undir 13 ára aldri. Fyrstu 6 mánuði í starfi er þessi heimild tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð. Með foreldri er einnig átt við fósturforeldri eða forráðamann.

Forföll af óviðráðanlegum ástæðum

Starfsmaður á rétt á leyfi frá störfum þegar um óviðráðanlegar (force majeure) og brýnar fjölskylduástæður er að ræða vegna sjúkdóms eða slyss sem krefjast tafarlausrar nærveru starfsmanns. Almennt á starfsmaður ekki rétt á launum frá atvinnurekanda í framangreindum tilfellum.

 

Hvenær á að greiða staðgengilslaun?

Aðilar eru um það sammála, að eigi þurfi að jafnaði að fela starfsmanni sérstaklega að gegna starfi yfirmanns nema fjarvera yfirmannsins vari lengur en 5 vinnudaga samfellt.

Sé aðalstarf starfsmannsins launað sem staðgengilsstarf yfirmanns, ber starfsmanninum laun yfirmannsins, án persónubundinna launamyndunarþátta, gegni hann starfi hans lengur en 4 vikur samfellt eða hafi hann gegnt starfi yfirmanns lengur en 6 vikur á hverjum 12 mánuðum. Laun yfirmanns greiðist einungis frá lokum nefndra 4 eða 6 vikna. Taki yfirmaður ekki laun samkvæmt kjarasamningi þessum skal starfsmaður fá þau laun sem samsvara launum yfirmannsins án persónubundinna launamyndunarþátta. Skrár skulu vera til yfir þá sem eru launaðir staðgenglar skv. starfsmati. Formlega skipaður staðgengill yfirmanns sem sinnir skyldustörfum hans að fullu í hans fjarvist, raðast 2 launaflokkum hærra en ella, enda hafi ekki verið tekið tillit til þess í starfsmati. 

Er heimilt að fresta orlofi milli ára?

Samkvæmt orlofslögum nr. 30/1987 er framsal orlofslauna og flutningur þeirra milli orlofsára óheimill. Hafi starfsmaður sem átti gjaldfallið orlof þann 1. maí 2020, allt að 60 dögum, ekki nýtt þá daga fyrir 30. apríl 2023, falla þeir dagar niður sem eftir standa.

Hver eru réttur til launalauss leyfis að ósk starfsmanns?

Almennt er ekki skylt að verða við ósk starfsmanns um launalaust leyfi frá störfum. Frá þessu kunna þó að vera undantekningar í kjarasamningi eða lögum, sbr. eftirfarandi dæmi:

Bjóðist starfsmanni tækifæri og/eða styrkur til að vinna að tilteknu verkefni tengdu starfi hans kann hann að eiga rétt á launalausu leyfi, sbr. ákvæði í kjarasamningi. Slíkt leyfi skal tekið í samráði við yfirmann stofnunar.

Starfsmaður kann að eiga rétt á foreldraorlofi til að annast barn sitt, sbr. VII. kafla laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof.

Hafi starfsmaður verið kjörinn á þing á hann rétt á launalausu leyfi í allt að fimm ár, sbr. 4. gr. laga nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað.

Ákvörðun um launalaust leyfi frá störfum að ósk starfsmanns er í höndum hlutaðeigandi stofnunar. Það eru engar almennar reglur til sem setja launalausum leyfum frá störfum skorður hvað varðar lengd. Ákvarðanir varðandi lengd launalausra leyfa eru því undir hlutaðeigandi stofnunum komnar nema í þeim undantekningartilvikum þegar það er sérstaklega tiltekið í lögum, kjarasamningum eða öðrum reglum. Almennt verður að telja óæskilegt að veita launalaust leyfi frá störfum til lengri tíma en 12 mánaða. Í því sambandi er m.a. rétt að hafa í huga að það getur verið vandkvæðum bundið að manna störf í slíkum tilvikum, með tilliti til auglýsingu skyldu og fleira, auk þess sem slíkt kostar oft tíma og fjármuni. Ef starfsmanni er veitt launalaust leyfi frá störfum er áríðandi að leyfið sé veitt í tiltekinn tíma þannig að ljóst sé hvenær starfsmaður byrjar í leyfi og hvenær hann á að mæta aftur til starfa. Mikilvægt er að ganga skriflega frá launalausu leyfi þannig að það sé ljóst hvað var ákveðið og að auðvelt sé að færa sönnur á að það ef til ágreinings kemur.

Í einhverjum tilfellum hafa sveitarfélög sett reglur hvað þetta varðar og þarf að kynna sér þær reglur sérstaklega.

Hvernig er greiðsla fæðisfé í veikindum, orlofi og fæðingarorlofi?

Fæðispeningar greiðast fyrir hvern vinnuskyldudag, þ.e. hvern dag sem mætt er til vinnu, að uppfylltum skilyrðum í kjarasamningi.

Fæðispeningar falla niður í veikindum, fæðingarorlofi, orlofi og öðrum fjarvistum þar sem um er að ræða kostnaðargreiðslu en ekki launagreiðslu.

Ef starfsmaður er kallaður til vinnu í orlofi

Ef starfsmaður er kallaður til vinnu í orlofi er valkvætt að:

  • Greiða starfsmanni yfirvinnu fyrir þá vinnu sem unnin á orlofstímanum en þá lengist orlof starfsmanns ekki.
    Eða
  • Starfsmaður fær hefðbundna laun fyrir fyrir vinnu sína á orlofstímanum og orlofið lengist sem unnum tíma í orlofi nemur.
  • Það sem báðar leiðir eru færar er best fyrir starfsmann að ganga frá því fyrirfram hvernig vinna á orlofstíma er gerð upp.