- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
Styrkir til félagsmanna teljast til skattskyldra styrkja. Styrkir eru skattlagðir eins og launatekjur og bera tekjuskatt og útsvar. Heimilt getur verið að telja kostnað til frádráttar. Persónulegur kostnaður leyfist þó aldrei til frádráttar. Frádráttur verður aldrei hærri en styrkfjárhæð og ef kostnaður er lægri en styrkurinn telst mismunurinn til skattskyldra tekna.
Styrkir til eignakaupa teljast til tekna og leyfist ekki frádráttur á móti þeim. Undantekning frá þessu geta þó verið styrkir sem veittir eru frá ríki eða sveitarfélögum vegna örorku og byggjast á lögum þar um. Í slíkum tilvikum færist stofnverð eigna til frádráttar á móti styrkfjárhæð.
Námskeiðsstyrkir eru skattskyldar tekjur. Heimilt getur verið að færa kostnað til frádráttar ef um er að ræða styrki til að sækja námskeið eða endurmenntun sem tengist starfi styrkþega. Ef um er að ræða námskeið sem er ótengt starfinu, t.d. vegna tómstundagamans, er frádráttur óheimill.
Nám, rannsóknir og vísindastörf
Styrkir til náms, rannsókna og vísindastarfa eru skattskyldar tekjur. Á móti námsstyrk er heimilt að færa til frádráttar beinan kostnað við námið, s.s. skólagjöld, en ekki kostnað við framfærslu sem telst vera persónulegur kostnaður. Óheimilt er að færa kostnað vegna kaupa á eignum til frádráttar á móti þessum styrkjum.
Á móti styrkjum til rannsókna og vísindastarfa er heimilt að færa beinan kostnað við hvert verkefni. Oft er um að ræða styrki vegna tiltekinna lengri og umsvifameiri verkefna sem eru þá gerð upp eins og rekstur.
Ef ekki er hægt að leggja fram kostnað á móti styrk í skattalegri meðferð (við gerð skattskýrslu), þá þarf að greiða skatt af styrknum eftir á, árið 2023.
Nánar má sjá hér á vef RSK Styrkir | Skatturinn - skattar og gjöld