- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
Þegar skoða á uppbyggingu og gildissvið kjarasamninga þarf fyrst að skoða hvar starfsmaður er á vinnumarkaði. Þar sem það gilda ólíkar reglur um opinbera starfsmenn annars vegar og starfsmenn á almennum vinnumarkaði hins vegar. Opinber vinnumarkaður telst vera þau fyrirtæki og stofnanir sem eru í eigu ríkis og sveitarfélaga, auk félaga og stofnana sem veita opinbera þjónustu. Almennt heyra málefni sem snúa að ríkinu undir fjármála- og efnahagsráðuneytið, en innan ráðuneytisins er Kjara- og mannauðssýsla ríkisins. Sveitarfélög eru sjálfstæð samkvæmt lögum en Samband íslenskra sveitarfélaga sinnir hagsmunagæslu fyrir þau og gerir kjarasamninga fyrir þeirra hönd.
Til einföldunar má því segja að á hinum opinbera vinnumarkaði séu starfsmenn ríkisins, sveitarfélaga og ýmissa sjálfseignarstofnana sem kostaðar eru að meirihluta til af almannafé. Þeir sem starfa hjá einkafyrirtækjum tilheyra þannig hinum almenna vinnumarkaði. Þó er þetta ekki alveg svona einfalt, enda hefur einkavæðing ríkisfyrirtækja leitt til þess að starfsmenn sem áður tilheyrðu hinum opinbera vinnumarkaði eru nú starfsmenn á hinum almenna vinnumarkaði. Það má til dæmis nefna Ríkisútvarpið og Isavia sem dæmi um slík félög, sem áður voru ríkisstofnanir en eru nú rekin sem opinber hlutafélög. Almenna reglan er hins vegar sú að þeir starfsmenn sem voru starfandi þegar einkavæðing átti sér stað haldi sínum réttindum, en þeir sem hefja störf eftir einkavæðingu hafa að vissu leyti önnur réttindi.
Einnig þarf að huga að því hvaða kjarasamningur gildir og fyrir hverja því það skiptir megin máli að skoða rétta samnigna þar sem mismunandi réttindi og skyldur kunna að eiga við um starfsmenn sveitarfélag og starfsmenn ríksins.
Hvað er kjarasamningur og hvaða áhrif hefur hann á launþega ?
Kjarasamningur er miðlægur samningur á milli stéttarfélags og atvinnurekanda eða samtaka atvinnurekenda. Kjarasamningurinn nær til allra félagsmanna sem samið er fyrir hverju sinni og inniheldur hann mikilvæg atriði varðandi kaup og kjör. Þar eru ákvæði um laun, vinnutíma, yfirvinnu, orlof, veikindarétt, uppsagnarrétt ofl. Jafnframt sem kjarasamningur segir til um framlag vinnuveitenda í sjóði félagsins sem félagsmaður nýtur réttinda úr. Kjarasamningurinn tryggir launþegum lágmarkskjör í þeim atriðum sem þar koma fram. Engan má ráða á lakari kjör en þar koma fram. Oft er samið um persónubundin kjör í ráðningarsamningi en þar geta aðeins verið sérstakir þættir sem lúta að betri starfskjörum en kjarasamngurinn kveður á um.
Starfsmenn sveitarfélaga
Sveitarfélög hafa falið Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga kjarasamningsumboð fyrir sína hönd.Kjarasvið sambandsins telst á grundvelli umboðsins annast allar kjaraviðræður við viðkomandi stéttarfélög, ganga frá kjarasamningum og annast útgáfu þeirra í samráði við viðkomandi stéttarfélög. Vinna að framkvæmd einstakra þátta samninganna á samningstímanum eins og við á og túlka og aðstoða sveitarfélagið/stofnunina við framkvæmd þeirra.
Þeir starfsmenn sem heyra undir kjarasamning starfsmanna sveitarfélaga hafa réttindi og skyldur samkvæmt lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þar er m.a. fjallað um sérstöðu opinberra starfsmanna, samningsrétt stéttarfélagsins og verkfallsrétt.
Um starfsmenn sveitarfélaga gilda að vissu leyti sömu reglur og gilda um ríkisstarfsmenn. Munurinn er hins vegar sá að reglurnar um starfsmenn sveitarfélaga eru almennt í kjarasamningum en ekki í lögum. Í kjarasamningum starfsmanna sveitarfélaga eru þannig áþekkar reglur um breytingar á störfum, áminningarferli og starfslok þeirra en einnig eru þar reglur um laun, orlofsrétt og önnur mikilvæg atriði.
Starfsmatskerfið er greiningartæki sem er notað til að meta með kerfisbundnum hætti þær kröfur sem störf gera til starfsmanna. Markmið starfsmats er að tryggja að starfsmönnum séu ákvörðuð laun með eins málefnalegum og hlutlægum aðferðum og hægt er og á að leiða til þess að störfum sé raðað þannig til grunnlauna að þau séu hin sömu fyrir störf sem metin eru jafnkrefjandi, óháð starfsstöðum, stéttarfélagi eða kyni.
Mikilvægt er að hafa í huga að starfsmat metur aðeins grunnkröfur til starfa en ekki einstaklingsbundna hæfni starfsmanna. Ekki er lagt mat á einstaklingsbundna hæfni jafnvel þó umfram hæfni eða hæfileikar hafi bein eða óbein áhrif á frammistöðu í starfi.
Frekari upplýsingar um starsfmat er að finna á www.starfsmat.is
Starfsmenn ríkisins
Um starfsmenn ríkisins gilda lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þau taka til hvers manns sem er skipaður, settur eða ráðinn í þjónustu ríkisins til lengri tíma en eins mánaðar, enda verði starfið hans talið aðalstarf. Í lögunum er fjallað ítarlega um réttindi starfsmanna og skyldur þeirra. Þar eru sérstök ákvæði um breytingar á störfum, áminningarferli og starfslok. Um öll þessi atriði er fjallað nánar hér á vinnuréttarvefnum. Þessu til viðbótar hafa kjarasamningar ríkisstarfsmanna að geyma ýmsar reglur um réttindi þeirra og skyldur, sem koma þá til viðbótar. Í kjarasamningum er t.d. fjallað um laun, orlof og fleira sem felur í sér betri réttindi til handa ríkisstarfsmönnum en samkvæmt lögum.
Almenna reglan er sú að starfsmenn ríkisins aðrir en embættismenn eiga rétt á launum samkvæmt kjarasamningi. Sjá 9. og 47. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Ríkið gerir kjarasamninga á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, annars vegar og laga um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, hins vegar. Fjármála- og efnahagsráðherra fer með fyrirsvar ríkissjóðs við gerð kjarasamninga. Hann skipar samninganefnd til að annast samninga fyrir sína hönd. Hún starfar í nánum tengslum við kjara- og mannauðssýslu ríkisins sem starfar í umboði ráðherra og er í forsvari fyrir ríkið sem vinnuveitanda.
Hvert stéttarfélag fer með eigið samningsumboð nema það kjósi að hafa samflot eða framselja samningsumboðið til heildarsamtaka sinna.
Kjarasamningar ríkisins eru þannig uppbyggðir að í miðlægum kjarasamningi er samið um þætti eins og vinnutíma, orlof, veikindarétt og fleira auk almennra launahækkana. Í miðlæga kjarasamningnum er ekki gengið frá forsendum launasetningar. Lokahönd er lögð á kjarasamningsgerðina með gerð stofnanasamninga sem eru hluti af kjarasamningum. Stofnanasamningar eru sérstakir samningar milli stofnana og stéttarfélaga um aðlögun tiltekinna þátta kjarasamninga að þörfum stofnana og starfsmanna með hliðsjón af eðli starfsemi, skipulagi og/eða öðru því sem gefur stofnunum sérstöðu.
Í þessu kerfi er miðstýring launaákvarðanna takmörkuð eins og kostur er. Helsta markmiðið með þessu samningalíkani er að færa ákvarðanir um launasetningu nær vettvangi. Stofnanir hafa síðan tækifæri til að umbuna starfsmönnum sínum á grundvelli mats á persónu- og tímabundnum þáttum, svo sem menntun, reynslu, og frammistöðu.
Samkvæmt þeirri skilgreiningu sem er að finna í 11. kafla kjarasamninga er stofnanasamningur sérstakur samningur milli stofnunar og viðkomandi stéttarfélags um aðlögun tiltekinna þátta hins miðlæga kjarasamnings að þörfum stofnunar með hliðsjón af sérstöðu starfa og verkefna hverrar stofnunar. Einn veigamesti þáttur hins miðlæga kjarasamnings sem stofnun og viðkomandi stéttarfélagi er ætlað að útfæra er hvaða þættir/forsendur skuli ráða röðun starfa. Þar að auki er heimilt að semja um aðra eða nánari útfærslu á vinnutímakafla hins miðlæga hluta hvers kjarasamnings og nokkur önnur atriði.
Það er rétt að taka það fram að stofnanasamningur er hluti af þeim kjarasamningi sem gerður er við viðkomandi stéttarfélag og er því ekki hægt að segja honum sérstaklega upp eða beita verkfalli til að þvinga fram breytingar á honum sem slíkum. Ef til ágreinings kemur um túlkun stofnanasamnings sem ekki er leyst úr í samstarfsnefnd þá er hægt að bera slíkan ágreining undir Félagsdóm alveg með sama hætti og ágreining um hin miðlægu ákvæði viðkomandi kjarasamnings.
Stofnanasamningurinn á að byggjast á starfsmanna- og launastefnu viðkomandi stofnunar. Hann á að stuðla að skilvirku launakerfi sem tekur mið af þörfum og verkefnum stofnunar og sjá til þess að framkvæmd, bæði starfsmannastefnunnar og launakerfisins, raski ekki þeim heildarmarkmiðum sem fjárlög setja stofnuninni hverju sinni.Ákvörðun um launasetningu starfsmanns í nýja launakerfinu, þ.e. því kerfi sem samið var fyrst um í samningunum 1997, fer fyrst og fremst eftir því hvaða grunnröðun starfið hefur samkvæmt stofnanasamningi, þ.e. starfstengdum þáttum. Því til viðbótar getur verið eðlilegt að meta persónubundna þætti sem gera viðkomandi hæfari til að sinna starfinu. Hafi grunnröðun starfs hækkað með nýjum stofnanasamningi er ástæða til að endurmeta persónubundna þætti starfsmanns. Því með hærri grunnröðun starfs er verið að gera ríkari kröfur til starfstengdra þátta og þar með líklegt að vægi persónubundinna þátta sé minna en áður.
Kjarasamningar ríkisstarfsmanna gera miklar kröfur til stofnana um flokkun starfa og starfsmanna í launa- og álagsflokka. Þó það sé markmið í sjálfu sér að sátt sé um launasetningu á milli stéttarfélaga og stofnunar í stofnanasamningi, þá eru rekstrarmarkmið stofnunarinnar og stefnumiðuð mannauðsstjórnun þeir grundvallarþættir sem kjarasamningunum er ætlað að styrkja.
Starfsgreining og starfsmat
Aðferðir við að ákvarða innbyrðis afstöðu starfa og starfsmanna með tilliti til launalegrar umbunar eru margvíslegar og hver annarri flóknari. Oftast er talað um að greina þurfi störfin til geta lagt mat á þau og borið þau saman. Fagleg starfsgreining er viðamikið mál og krefst töluverðrar sérfræðiþekkingar ef hún á að vera raunsönn fyrir sérhvert starf og nýtast til samanburðar. Starfsgreiningin verður svo sá grunnur sem formlegt starfsmat byggir á þar sem erfiðleikastig og gildismat þeirra starfsþátta sem notaðir eru í greiningunni ákvarða innbyrðis vægi starfa til launa.
Þó fyrir liggi starfsmat af fullkomnustu gerð er björninn ekki að fullu unninn því starfsmennirnir sem gegna störfunum búa yfir misjafnri hæfni. Almennt er tekið tillit til þess við ákvörðun launa. Tímabundnar sveiflur í starfinu og frammistöðu einstaklinga er líka athugunarefni.
Ríkið hefur ekki lagt áherslu á að stofnanir þess vinni ítarlegar starfsgreiningar og setji fram formlegt starfsmat. Það hefur þótt of viðamikið og erfitt í viðhaldi til þess að vera raunhæft fyrir einstakar stofnanir og miðstýrt starfsmat færi gegn markmiðum ríkisins um dreifstýringu.
Starfslýsingar
Engu að síður er grundvöllur alls mats á störfum og hæfni einstaklinga upplýsingar um skyldur starfsins og þá hæfni sem einstaklingurinn þarf að búa yfir til að gegna því. Þessar upplýsingar eru venjulega kallaðar starfslýsingar. Starfslýsing er grunnþáttur mannauðsstjórnunar sem notuð er við ráðningu, dagleg störf, starfsmannasamtal, starfsþróun og „starf“ er hornsteinn í mannauðshluta Oracle-upplýsingakerfisins.
Í starfslýsingum felast lykilupplýsingar jafnt fyrir starfsmenn og stjórnendur og ættu þær að vera til fyrir sérhvert starf eins og það er á hverjum tíma. Stjórnendur ættu að athuga að starfslýsingar takmarka á engan hátt eðlilegan stjórnunarrétt þeirra. Athygli skal vakin á því að öllum stofnunum er skylt að nota starfaflokkunarkerfi Hagstofunnar, Ístarf-95, sem er ætlað til að staðla alla launatölfræði í landinu og rímar sú flokkun við starfslýsingar. Líka er rétt að athuga að stjórnendum er rétt að setja starfsmönnum erindisbréf (starfslýsingu) og hver sem þess óskar á rétt á henni skv. 8. gr. starfsmannalaga (l. nr. 70/1996).
Starfslýsingar fyrir öll störf
Fjármála- og efnahagsráðuneytið vill því beina því til stofnana að starfslýsingar séu til um öll störf og þau séu rétt flokkuð skv. Ístarf-95. Hvað varðar Oracle-mannauðskerfin er gert ráð fyrir því í dag að starfslýsingar séu settar sem viðhengi, t.d. í Word, með „starfi“. Hins vegar er það til skoðunar hvort sett verður sérstök mynd í kerfið fyrir starfslýsingar í samhengi við hæfni, starfsþróun og fleiri atriði, en of snemmt er að segja til um hvort af því verður. Þangað til verða starfslýsingar að vera á viðhengisforminu.
Af vef stjórnarráðsins: https://www.stjornarradid.is/verkefni/mannaudsmal-rikisins/kjarasamningar-laun-og-starfskjor/
Réttarheimildir
Þau lög og reglur sem skipta opinbera starfsmenn mestu máli eru eftirfarandi:
Að miklu leyti gilda sambærilegar reglur fyrir starfsfólk hjá ríkinu og starfsfólk sveitarfélaga. Það er hins vegar munur á því á hvaða stoð þessar reglur byggja. Hjá starfsfólki ríkisins byggja þær að mestu leyti á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og kjarasamningum. Hjá starfsmönnum sveitarfélaga byggja reglurnar hins vegar að mestu leyti á kjarasamningum.
Þegar horft er til réttinda launafólks á almenna vinnumarkaðinum skipta eftirtalin lög mestu máli: