- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
Leiðbeiningar um mönnun á stórhátíðardögum og hlé frá störfum. Júní 2024
Nú skal hafa 11. tíma hvíld á milli vakta hjá vaktavinnufólki
Ályktun fulltrúarráðs, nóvember 2021
Fulltrúarráð Kjalar stéttarfélags skorar á sveitarfélögin að tryggja starfsfólki sínu styttingu vinnuvikunnar eins og samið var um í kjarasamningum. Sveitarfélögin verða að beita sér fyrir því að fram fari umbótasamtöl á hverjum vinnustað þar sem starfsfólkið útfærir styttinguna og ákveður hversu mikil hún verður. Hjá ríkinu hafa átta af hverjum tíu vinnustöðum farið í 36 stunda vinnuviku og níu af tíu vinnustöðum hjá Reykjavíkurborg. Önnur sveitarfélög verða að fylgja því fordæmi og tryggja þar með aukin afköst, betri þjónustu og aukna starfsánægju.
Hvað þarf að gera fyrst til að stytta vinnuvikunna? Markmiðið er 36 tíma vinnuvika í dagvinnu eins og í vaktavinnu
Það er til mikils að vinna minna
Styttri vinnuvika leiðir til meiri ánægju í starfi, aukinna afkasta og er lóð á vogarskálar aukins jafnréttis kynjanna. Heilsa og vellíðan batnar með styttri vinnudegi.
Heimilt er með sérstöku samkomulagi meirihluta starfsfólks ríkis, sveitarfélags/stofnunar/ vinnustaðar að stytta vinnuvikuna með því að laga vinnutíma að þörfum vinnustaðar og starfsfólks. Við gerð samkomulagsins skal taka mið af eðli starfsemi, skipulagi og/eða öðru því sem gefur vinnustað sérstöðu.
Styttingin getur náð allt að 4 stundum á viku, úr 40 stunda vinnuviku í allt að 36 virkar vinnustundir fyrir starfsfólk í 100% starfshlutfalli. Vinnutími starfsmanna í hlutastarfi styttist hlutfallslega. Samhliða því verður grein 3.1 í kjarasamningi óvirk. Niðurstaða samtals getur einnig verið á þá leið að óbreytt vinnufyrirkomulag henti best, enda telji starfsmenn sig nú þegar búa við betra fyrirkomulag.
Hér er ýmistlegt ítarefni m.a. tilraunaverkefnin hjá ríki og Reykjavíkurborg
Fyrst þarf umbótasamtal:
Betri vinnutími í vaktavinnu
Verkefnið um betri vinnutíma í VAKTAVINNUsbr. fylgiskjal 2 í kjarasamningum ríkis og fylgiskjal 3 hjá sveitarfélögum er í fullum gangi.
Fræðsluefni er smám saman að koma á vefinn www.betri.vinnutími.is og viljum við hvetja ykkur til að fylgjast vel með vefnum á komandi vikum og mánuðum. Hægt er að gerast áskrifandi að síðunni ef breytingar verða sem er mjög gott.
Fyrst er að skoða feril um innleiðingu sem er þrepaskipt
Hér er hægt að nálgast bækling
Hægt er að senda fyrirspurnir á betrivinnutimi@rikissattasemjari.is ef þið hafið spurningar eða ábendingar
Hér gæti verið svar við spurningu þinni
Ávarp formanns BSRB
Kæru félagar,
Umræðan um hvernig breyta má skipulagi vinnutíma og stytta vinnuvikuna er nú hafin á flestum vinnustöðum ríkis og sveitarfélaga. Hér að neðan fjalla ég um styttingu vinnuvikunnar aðallega út frá vinnustöðum þar sem unnið er í dagvinnu. Undirbúningur styttingar vinnuvikunnar er einnig hafinn hjá starfsfólki í vaktavinnu og má finna frekari upplýsingar þar um á betrivinnutimi.is.
Meginmarkmiðið þegar stytting vinnuvikunnar er undirbúin á hverjum vinnustað er að finna leiðir til að endurskipuleggja vinnuna þannig að hægt sé að stytta vinnuvikuna niður í 36 stundir á viku. Þessar breytingar munu stuðla að betri heilsu, betri samræmingu vinnu og einkalífs og auknum lífsgæðum starfsfólks. Til að vel takist til verður að tryggja góðan undirbúning og þátttöku allra á vinnustaðnum, enda enginn sem þekkir verkefnin betur en starfsfólkið sem sinnir þeim alla daga.
Vinnuvikan hefur verið 40 stundir hér á landi í næstum 50 ár. Það hefur gríðarlega margt breyst frá því hún tók gildi. Á þeim tíma voru nær allar konur heimavinnandi, það voru engar tölvur, ekkert internet og svo mætti lengi telja. Það eru engin vísindaleg rök fyrir því að nákvæmlega sá fjöldi vinnustunda sem passaði samfélaginu fyrir hálfri öld henti best í öllum þeim fjölbreyttu störfum sem við vinnum í dag. Það er því öllum hollt að velta fyrir sér hvernig megi losa sig úr viðjum vanans og hugsa vinnuvikuna upp á nýtt, öllum til hagsbóta.
Vinnutímanefnd leiðir verkið á hverjum vinnustað
Fyrsta skrefið í átt að því að stytta vinnuvikuna er að stofna vinnutímanefnd með fulltrúum starfsfólks og stjórnenda á hverjum vinnustað sem undirbýr breytinguna og leiðir samtalið á vinnustaðnum. Vinnutímanefndin boðar til samtals þar sem hún skapar umræðuvettvang fyrir allt starfsfólk um tækifæri og nýjar leiðir í bættu vinnutímafyrirkomulagi.
Í því samtali þarf að velta upp spurningum á borð við hvernig má bæta skipulag vinnunnar, verklag, samvinnu, verkefnadreifingu, stjórnun og vinnubúnað eða nýta tæknina betur til að vinna styttri vinnuviku. Samhliða þarf að tryggja að starfsfólk geti veitt jafn góða þjónustu og fyrir breytingarnar. Þá þarf að ræða fyrirkomulag styttingarinnar á vinnustaðnum, til dæmis hvort styttingin sé tekin út daglega eða vikulega og þá á hvaða dögum og tíma dags.
Leggja þarf mesta áherslu á að hugsa hlutina upp á nýtt og reyna að komast upp úr hjólförum fortíðarinnar. Þannig er ágætt að velta upp spurningunni af hverju hlutirnir séu gerðir á ákveðinn hátt í vinnunni. Ef svarið er að þetta hafi alltaf verið svona má spyrja sig næstu spurningar, hvort það sé besta fyrirkomulagið eða hvort vinna megi hlutina með öðrum hætti og þannig stytta vinnuvikuna.
Reynslan af tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar hjá ríki og Reykjavíkurborg sýnir að starfsánægja verður meiri. Starfsfólk sýnir aukið frumkvæði í vinnunni og jákvæðar breytingar endurspeglast í breyttum starfsháttum. Þannig leggist allir á eitt að finna tækifærin sem felast í að bæta skipulag vinnunnar. Þá skiptir aukin samvinna miklu ef vel á að takast til.
Ólíkar þarfir milli hópa
Störf hjá ríki og sveitarfélögum eru mjög fjölbreytt. Sumir hafa mikinn sveigjanleika og geta þannig unnið vinnuna hvar sem er, á hvaða tíma sem er og hafa mikla stjórn á því hvaða verkefni eru unnin hverju sinni. Aðrir geta eingöngu unnið sína vinnu á vinnustaðnum sjálfum, á tilteknum tíma og enn aðrir geta lítil áhrif haft á verkefni sín eða forgangsröðun þeirra. Það er mikilvægt að greina á milli þessara hópa á vinnustaðnum því útfærslur matartíma og annarra hléa þurfa að taka mið af þessu. Starfsfólk sem er bundnara við sín verkefni hefur minni stjórn en aðrir á hvenær þau bregða sér frá og því þarf að tryggja þeim tímasett hlé.
Fjölmargar spurningar hafa borist um hvort neysluhlé falli niður ef ákveðið er að stytta vinnuvikuna í 36 stundir. Þannig virðist umræðan á sumum vinnustöðum snúast um að vinnuvikan verði stytt með því einu að taka út tímasett hlé. Það er misskilningur þar sem meginmarkmiðið með breytingunum er að starfsfólk og stjórnendur finni leið til að skipuleggja vinnuna sjálfa betur. Að því loknu þarf að aðlaga matartíma og önnur hlé að nýju vinnuskipulagi.
Mikilvægt er fyrir andlega og líkamlega líðan starfsfólks að tekin séu reglubundin stutt hvíld frá störfum sem veita starfsfólki aukna orku og einbeitingu. Þar sem störf eru miskrefjandi er afar breytilegt hvað hentar starfsfólki best. Þess vegna er fyrirkomulag hléa afar fjölbreytt á milli vinnustaða og því erfitt að leggja til eina leið sem virkar fyrir alla. Vænlegast til árangurs er að horfa til heilsusjónarmiða þegar umræðan um hvernig neyslu- eða hvíldarhléin eiga að vera í breyttu skipulagi vinnutíma.
▪ Á sumum vinnustöðum þarf fólk afleysingu til að geta borðað eða tekið stutt hvíldarhlé. Slíkt fyrirkomulag myndi þá halda áfram en starfsfólk gæti sameinast um að stytta matartímann svo hann sé ekki 30-35 mínútna langur.
▪ Á öðrum vinnustöðum er ekki sérstakt mötuneyti fyrir starfsfólk, heldur matast starfsfólkið með þeim sem það annast eða veitir þjónustu. Því til viðbótar eru skipulögð hvíldarhlé. Á slíkum vinnustöðum getur starfsfólk til dæmis rætt breytingar á hvíldarhléunum til að aðlaga að styttri vinnuviku án þess að það lengi viðveru. Það er ekki heimilt að fella hlé alveg niður og ekki þörf á að ganga skemur í styttingu vinnutíma vegna hléanna nema þau séu þess eðlis að starfsfólk vilji geta nýtt þau til dæmis til að fara út af vinnustaðnum.
▪ Algengt er að einu skipulögðu hléin á vinnustað séu í hádeginu og þá fái fólk sér hádegismat í mötuneyti vinnustaðar. Þar fyrir utan hefur fólk tækifæri til að bregða sér frá störfum til að sækja sér kaffibolla eða aðra hressingu. Á slíkum vinnustöðum gæti niðurstaðan til dæmis verið að halda áfram þessu fyrirkomulagi en stytta fjarveru frá störfum í matartímanum í ljósi þess að vinnuvikan hefur verið stytt.
Meginbreytingin á matarhléum og öðrum hléum í dæmunum þremur hér að ofan væri þá að fólk myndi ekki nýta hléin til að fara út af vinnustaðnum heldur vera á staðnum og tímalengd skipulögðu hléanna verða aðlöguð að styttri vinnuviku. Á sumum vinnustöðum kann starfsfólk að vilja skipuleggja hlé á vinnutíma þar sem þau fara af vinnustaðnum eða hlé sem eru lengri en talið er nauðsynlegt með hliðsjón af heilsu starfsfólks. Slík hlé myndu þá lengja viðveru á vinnustaðnum og styttingin myndi þar af leiðandi ekki ná 4stundum á viku.
Nýtt skipulag vinnutíma
Að loknu samtali allra á vinnustaðnum tekur vinnutímanefnd á viðkomandi vinnustað saman umræðuna og gerir tillögu að nýju fyrirkomulagi vinnutíma. Tillöguna, eða eftir atvikum tillögur, skal kynna öllum á vinnustaðnum og að loknu því samtali er tillagan borin undir atkvæði starfsfólks. Breytingin tekur gildi á þeim tíma sem starfsfólk hefur komið sér saman um, en ekki síðar en 1. janúar 2021.
Margir sem hafa upplifað styttingu vinnuviku á eigin skinni nefna að hún feli í sér mun meiri lífsgæði en reiknað var með. Einnig fann starfsfólk að það hafði meiri tíma fyrir sig og fjölskyldu sína og fann jákvæðan mun á andlegri og líkamlegri heilsu. Það er krefjandi verkefni að undirbúa vinnutímabreytingar sem fela í sér 4 klukkustunda vinnustyttingu á viku en það er sannarlega til mikils að vinna fyrir starfsfólkið, vinnustaðinn og samfélagið í heild sinni. Gangi ykkur öllum vel!
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB
___________________________
Nánari upplýsingar um ferlið má finna í meðfylgjandi bæklingi. Þrátt fyrir að þar sé fjallað um starfsfólk ríkisins eiga sömu upplýsingar við um starfsfólk sveitarfélaga, en von er á sambærilegum bæklingum fyrir þau innan skamms. Enn fremur má finna gagnlegar upplýsingar á eftirfarandi vefsíðum:
▪ Fyrir starfsfólk ríkisins: www.betrivinnutimi.is (undir flipunum dagvinna og umbótasamtal)
▪ Fyrir starfsfólk sveitarfélaga: https://www.samband.is/verkefnin/kjara-og-starfsmannamal/betri-vinnutimi/dagvinnufolk/
▪ Fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar: https://reykjavik.is/betrivinnutimi/dagvinna
Betri vinnutími í dagvinnu
Um hvað var samið í kjarasamningi sjá hér fylgiskjal 1 ríkið
Hér má fylgiskjal 2, sjá fylgiskjal 2 Wordskjal úr kjarasamningum við Samband sveitarfélaga og þeirra sem fara eftir þeim samningi
Innleiðingferlið fer af stað í nokkrum þrepum
Bæklingur um innleiðingarferlið og dæmi um útfærslur á vinnutímastyttingunni.
Bæklingur samtaka launafólks og Sambands íslenskra sveitarfélag
Hér gæti verið svar við spurningu þinni