- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
Trúnaðarmenn eru fulltrúar stéttarfélaga á vinnustað, þeir eru kjörnir af starfsmönnum og skipaðir af stéttarfélaginu. Í V. kafla laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 er ítarlega fjallað um trúnaðarmenn á vinnustöðum. Þar segir að á hverri vinnustöð þar sem a.m.k. fimm menn vinna sé starfsmönnum heimilt að kjósa úr sínum hópi einn trúnaðarmann. Á vinnustöð þar sem fimmtíu menn eða fleiri vinna má kjósa tvo trúnaðarmenn.
Heimilt er að kjósa trúnaðarmenn fyrir félagssvæði eða hluta þess starfsmanna á vinnustöðvum sem ekki uppfylla skilyrði um lágmarksfjölda, en þó geta einstök félög samið um aðra skipan á vali trúnaðarmanna.
Kosning og tilkynning
Trúnaðarmenn skal kjósa til tveggja ára í senn. Þegar úrslit kosninga liggja fyrir skal val trúnaðarmanna tilkynnt vinnuveitanda og stjórn stéttarfélags þegar í stað. Ef fleiri en eitt stéttarfélag er með félagsmenn á vinnustað skal kjósa trúnaðarmann eða trúnaðarmenn, eftir fjölda félagsmanna, fyrir hvert félag. Þannig hefur hvert stéttarfélag sína trúnaðarmenn á vinnustað þó félagsmenn úr fleiri félögum vinna á sama vinnustað.
Mikilvægt er að kosning fari fram á tveggja ára fresti, eins og lögin áskilja, jafnvel þó einungis einn sé í framboði á vinnustað, sbr. Hrd. 331/2016 þar sem trúnaðarmanni var sagt upp störfum á grundvelli hagræðingar en hann taldi sig eiga að njóta verndar vegna stöðu sinnar sem trúnaðarmaður. Viðkomandi hafði verið kosinn trúnaðarmaður á árinu 2012 en tveimur árum síðar var ekkert kjör haldið. Þegar uppsögn kom til var hann þ.a.l. ekki kjörinn trúnaðarmaður og hafði því ekki formlega stöðu sem slíkur, jafnvel þó afstaða yfirmanna hefði verið sú að viðkomandi væri trúnaðarmaður á vinnustaðnum. Uppsögnin var því talin lögleg.
Hlutverk trúnaðarmanna
Trúnaðarmaður skal gæta þess að vinnuveitandi og fulltrúar hans haldi kjarasamning og að réttur starfsmanna sé í hvívetna virtur, einkum um orlof, vinnuvernd, öryggi og hollustuhætti. Starfsmönnum ber að snúa sér til trúnaðarmanns með umkvartanir sínar.
Trúnaðarmanni ber að rannsaka málið þegar í stað er umkvartanir berast eða hann hefur ástæðu til að ætla að gengið sé á rétt starfsmanna eða stéttarfélags á vinnustöð hans af hálfu vinnuveitanda. Komist trúnaðarmaður að þeirri niðurstöðu að umkvartanir eða grunur hafi við rök að styðjast ber honum að krefja vinnuveitanda eða umboðsmann hans um lagfæringu.
Trúnaðarmaður skal gefa starfsmönnum á vinnustöðinni og stéttarfélagi, er í hlut á, skýrslu um kvartanir starfsmanna jafnskjótt og við verður komið. Enn fremur gefur hann sömu aðilum skýrslu um hvað vinnuveitandi hafi brotið af sér við starfsmenn og stéttarfélag þeirra svo og hvaða lagfæringar hafi fengist fram.
Trúnaðarmaður á rétt til að rækja skyldur sínar í vinnutíma enda geri hann yfirmanni sínum grein fyrir erindi sínu hverju sinni.
Á vinnustaðnum skal honum veitt aðstaða til þess m.a. að eiga einkaviðræður við samstarfsmenn sína, halda með þeim fundi í kaffitímum eða við lok vinnudags, þar sem því verður við komið, veita honum aðgang að síma o.s.frv.
Vernd trúnaðarmanna
Verndin nær fyrst og fremst til þeirra starfa sem tengjast trúnaðarmannsstarfinu
Trúnaðarmaður skal í engu gjalda þess í starfi eða á annan hátt að hann hafi valist til trúnaðarstarfa.
Trúnaðarmaður Kjalar er kosinn af félagsmönnum á vinnustað til að gegna því mikilvæga hlutverki að vera tengiliður milli félagsmanna á vinnustað og atvinnurekenda annars vegar og milli félagsmanns og stéttarfélags hins vegar. Trúnaðarmanni ber að gæta þess að samningar á milli atvinnurekenda og starfsmanna séu virtir og að ekki sé gengið á rétt starfsmanna.
Trúnaðarmenn Kjalar eru um 57 talsins og mynda þétt tengslanet á félagssvæðinu. Allir eiga þeir sæti í Trúnaðarmannaráði Kjalar sem fundar eftir málefnum og þörfum hverju sinni.
Vernd trúnaðarmanna gegn uppsögn af hálfu atvinnurekanda er hornsteinn þeirra reglna sem gilda um trúnaðarmenn. Verndin er til að tryggja það að trúnaðarmaður geti sinnt skyldum sínum án þess að eiga á hættu að vera sagt upp störfum vegna þeirra.
Trúnaðarmenn sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum njóta ákveðinna réttinda og verndar skv. 28.-30. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Einnig er sérstakt samkomulag um trúnaðarmenn í kjarasamningum félagsins.
Trúnaðarmenn á almennum vinnumarkaði njóta réttinda og verndar samkvæmt 9.-13. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.
Verndin nær fyrst og fremst til þeirra starfa sem tengjast trúnaðarmannsstarfinu en ekki daglegra starfa hans.
Brjóti trúnaðarmaður alvarlega af sér í starfi má væntanlega víkja honum úr starfi og það er ekki tilgangur laganna að halda hlífiskildi yfir starfsmönnum vegna alvarlegra brota í starfi. Það er ljóst samkvæmt þessu að vernd trúnaðarmanns í starfi er ekki alger og að trúnaðarmaður getur þurft að hlíta uppsögn fyrir misfellur í starfi eða brot á þeim starfsreglum á vinnustað, sem starfsmönnum er almennt skylt að hlíta.
Fræðsla trúnarðarmanna
Samkvæmt samkomulagi um trúnaðarmenn er trúnaðarmönnum tryggð þau mikilvægu réttindi að geta sótt málþing, fundi, ráðstefnur og námskeið í allt að eina viku á ári án skerðingar á reglubundnum launum. Þannig geta trúnaðarmenn til dæmis sótt fræðslunámskeið á vinnutíma og bætt við sína þekkingu á vinnurétti. Dæmi um slík námskeið er trúnaðarmannanám Félagsmálaskóla Alþýðu sem BSRB og ASÍ starfrækja, en hlutverk hans er m.a. að skipuleggja og halda námskeið fyrir trúnaðarmenn þar sem þeir fá fræðslu. Þannig verða þeir hæfari trúnaðarmenn og öflugri, fyrir bæði starfsmenn og stéttarfélög.
Lög: