- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
Aðild að stéttarfélögum er bundin við ákveðnar takmarkanir sem lúta því að hóp á vinnumarkaðnum, starfsgrein eða starfi. Þetta þýðir að ef starfsmaður tekur að sér starf sem ákveðið stéttarfélag gerir kjarasamninga fyrir, þá greiðir viðkomandi starfsmaður félagsgjald til þess félags.
Afhverju er Kjölur stéttarfélag eingöngu fyrir starfsmenn ríkis og sveitarfélaga?
Kjölur stéttarfélag er félag starfsmanna í almannaþjónustu. Félagssvæði þess er Austurland, Norðurland, Vesturland og Vestfirðir sbr. 1. gr. laga félagsins. Í 3. gr. laga félagsins er að finna skilyrði fyrir félagsaðild og rétt til inngöngu í félagið:
1. Einstaklingar sem starfa hjá sveitarfélögum á félagssvæðinu.
2. Einstaklingar sem starfa hjá stofnunum ríkisins á félagssvæðinu sem áður voru stofnanir sveitarfélaga.
3. Einstaklingar, sem starfa hjá sjálfseignarstofnunum á félagssvæðinu sbr. 2. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986.
4. Einstaklingar sem starfa hjá fyrirtækjum og stofnunum á félagssvæðinu sem starfa í almanna þágu, enda hafi viðkomandi stofnun eða starfsemi áður verið á vegum sveitarfélags, ríkis eða sjálfseignarstofnunnar.
Einstaklingur sem uppfyllir eitthvert af ofannefndum skilyrðum til þess að geta orðið félagsmaður og greiðir félagsgjald til félagsins, telst þar með félagsmaður.
Get ég valið stéttarfélag?
Starfsmaður getur ekki valið stéttarfélag að eigin vild þar sem það skiptir máli hvort starf sem sinnt er sé á starfs- og samningssviði viðkomandi stéttarfélags. Sé hins vegar um að ræða starf sem getur fallið undir tvo samninga ber að velja það félag sem er ráðandi í starfi viðkomandi starfsmanns.
Verð ég að gerast félagsmaður?
Starfsmanni er frjálst að gerast félagi í stéttarfélagi sem greitt er til. Á grundvelli félagafrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar er það í höndum launamanns að ákveða hvort hann vilji standa innan eða utan stéttarfélaga.
Hvað þýðir að standa utan félags?
Starfsmanni verður ekki gert skylt að ganga í félag. Á grundvelli 2. mgr. 7. gr.laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 segir að starfsmaður sem ekki er innan stéttarfélags greiðir gjald til þess stéttarfélags sem hann ætti að tilheyra enda fari um laun hans og starfskjör eftir samningum samkvæmt nánari ákvörðun fjármálaráðherra eða sveitarstjórnar.