- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
Minningargrein um Gunnlaug Búa Sveinsson f. 24. febrúar 1932, jarðsettur frá Akureyrarkirkju þriðjudaginn 5. febrúar 2019.
Í sorginni ómar eitt sumarblítt lag,
þó er sólsetur, lífsdags þíns kveld.
Því er kveðjunnar stund, og við krjúpum í dag
í klökkva við minningareld.
Orð eru fátæk en innar þeim skín
það allt sem við fáum ei gleymt.
Allt sem við þáðum, öll samfylgd þín
á sér líf, er í hug okkar geymt.
Í góðvinahóp, þitt var gleðinnar mál
eins þó gustaði um hjarta þitt kalt.
Því hljómar nú voldugt og sorgblítt í sál
eitt sólskinsljóð, - þökk fyrir allt. (B.B.)
Félagi Gulli Búi eins og hann var alltaf kallaður gerðist félagsmaður í STAK árið 1964 og frá upphafi gegndi hann mörgum trúnaðarstörfum fyrir félagið sem nú heitir KJÖLUR stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu. Hann var formaður á árunum 1982-1985 en áður hafði hann starfað í orlofsnefnd, skemmtinefnd og ferðanefnd. Hann átti sæti í afmælisnefnd þegar félagið varð 30 ára og var veislustjóri í 50 ára afmælisfagnaði þess. Þá eru ótaldar ýmsar nefndir og ráð sem hann sat í, bæði fyrir félagið og sem fulltrúi þess hjá BSRB og hjá Akureyrarbæ. Hann var einnig fulltrúi í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar, LSA, frá 1982 til 1994.
Gulli Búi bar mikla umhyggju fyrir félaginu og vildi hag þess sem mestan. Hann barðist í verkfalli opinberra starfsmanna árið 1984 og þreyttist ekki á að rifja upp í góðum hópi félaga sögur af aðgerðum og samskiptum frá þeim tíma. Einnig bar hann hag sinna manna í slökkviliðinu fyrir brjósti og stuðlaði að starfsmenntun þeirra. Öryggismál á vinnustöðum sem og í samfélaginu almennt voru hans baráttumál. Eitt sinn var hann staddur í orlofshúsi félagsins þar sem hann sá hættu stafa af lágu þakskyggni og var ekkert að tvínóna við það, sótti sög og sagaði hornið burt! Félagið býr enn að þeirri góðu ráðdeild sem Gulli Búi sýndi í verkum sínum.
Fyrir hönd KJALAR stéttarfélags vil ég þakka það mikla og góða starf sem Gunnlaugur Búi innti af hendi í þágu félagsins og félagsmanna. Minning hans mun lifa í okkar hópi. Signu eiginkonu hans, börnum þeirra og fjölskyldu sendi ég innilegar samúðarkveðjur. Arna Jakobína Björnsdóttir
Kjölfesta - mars 2024
Fjallað er um starfsemi félagsins á liðnu ári ásamt því sem rætt er við félagsfólk í fjölbreyttum störfum.