Hálfrar aldar skilgreiningu vinnuviku rutt úr vegi
Stytting vinnuvikunnar er fjölskylduvæn aðgerð og er sannarlega fagnaðarefni. Enda eru engin augljós rök fyrir því að fullt starf feli í sér átta tíma vinnudag, eða 40 stunda vinnuviku. Ekkert segir að sá vinnustundafjöldi sé hagkvæmastur fyrir vinnuveitendur, skili þjóðfélaginu mestum hagvexti né að hann sé besta útfærsla vinnutíma með tilliti til heilsu starfsfólks, svo dæmi séu nefnd. Þessi skilgreining vinnuviku byggir á kröfum stéttarfélaga við lok 19. aldar þar sem langflest störf voru verksmiðjustörf og störfin mjög lík. Vinnuvikan var skilgreind 40 stundir, eða öllu heldur stytt niður í þann tímafjölda, árið 1971.
Vinnumarkaður hefur gjörbreyst síðan þá, tækniframfarir verið gríðarmiklar og fjölbreytni starfa er mikil. Sum þeirra eru þess eðlis að það er hægt að vinna þau í 40 tíma á viku án þess að það hafi skaðleg áhrif á meðan önnur stofna heilsu fólks í hættu, sé vinnutími svo langur. Spurningin er hins vegar sú hvort við eigum ekki frekar að ákveða lengd vinnuvikunnar út frá þekkingu dagsins í dag og samfélagi nútímans í stað samfélagsins eins og það var fyrir 50 árum.
Aukin lífsgæði – betri starfsmenn
Á síðustu árum hefur verið ráðist í tilraunaverkefni um vinnuvikustyttingu hjá ríkinu og Reykjavíkurborg og reynsla af þeim var grunnur samkomulagsins um styttingu vinnuvikunnar. Því miður var ekkert sveitarfélag sem Samband íslenska sveitarfélaga semur fyrir reiðubúið að taka þátt í tilraunaverkefnum á sínum tíma en augljóslega er stytting vinnuviku starfsmanna sveitarfélaga þeim jafn dýrmæt og öðrum.
Margir þeirra sem hafa reynt styttingu vinnuviku á eigin skinni nefna að hún feli í sér mun meiri lífsgæði en þeir áttu von á í byrjun. Einnig fundu starfsmenn að þeir hefðu meiri tíma fyrir sig sjálfa, sögðu andlega og líkamlega heilsu batna auk þess sem starfsmennirnir í reynsluverkefnunum nefndi rýmri tíma og meiri orku fyrir félagslíf, heilsurækt eða annað. Styttri vinnuvika felur með öðrum orðum einfaldlega í sér aukin lífsgæði starfsfólks og stuðlar að hamingjusamara samfélagi.
Ákvæði um styttingu vinnuvikunnar taka gildi nú um áramótin og vil ég brýna fyrir bæði opinberum starfsmönnum og atvinnurekendum að láta ekki hjá líða að útfæra hana og fylgja þannig þessum mikilvægu breytingum eftir.
Nánara ítarefni eins og útskýringamyndbönd er að finna á www.kjolur.is, www.styttri.is og www.betrivinnutími.is
Arna Jakobína Björnsdóttir
Höf. er formaður Kjalar stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu.