Konur búa enn við launamisrétti 60 árum eftir að launajafnrétti var leitt í lög. Íslenskar og erlendar rannsóknir sýna að kynskiptur vinnumarkaður er ein helsta skýringin á launamuni kynjanna. Síðustu ár hefur ýmislegt áunnist í vinnu gegn kynbundnum launamun en áherslan hefur almennt verið á að leiðrétta launamun innan vinnustaðarins líkt og með jafnlaunavottun en ekki þvert á vinnustaði sem heyra undir sama atvinnurekanda. Fram til þessa hefur því lítil sem engin áhersla verið lögð á að vinna gegn launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði. Fjölmargar erlendar rannsóknir sýna að ein skilvirkasta aðgerðin til að stuðla að jöfnum launum fyrir jafnverðmæt störf felst í virðismati starfa. Konur og karlar vinna ólík störf á ólíkum vinnustöðum og því er næsta skref að útvíkka samanburðinn til að meta megi heildstætt virði ólíkra starfa sem heyra undir sama atvinnurekanda en unnin eru á mismunandi vinnustöðum.
Starfshópur forsætisráðherra, sem BSRB, BHM og KÍ áttu sæti í, um endurmat á störfum kvenna skilaði tillögum til aðgerða til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði fyrir ári síðan. Í kjölfar tillagnanna skipaði forsætisráðherra aðgerðahóp um launajafnrétti, sem samtök launafólks á einnig sæti í, sem hefur það hlutverk að byggja upp þekkingu, prufa sig áfram í nýjum leiðum að virðismati og búa til verkfæri til að leiðrétta skakkt verðmætamat kvennastarfa á grundvelli tillagnanna. Aðgerðarhópurinn hefur hafið störf og vinnur um þessar mundir að þróunarverkefni um endurmat á virði kvennastétta. Markmið fundarins er að miðla áfram þeirri þekkingu sem nú er fyrir hendi og í framhaldinu eftir því sem þekkingin dýpkast.
BSRB, BHM og Kennarasambandið stóðu sameiginlega fyrir fundi um endurmat á virði kvennastarfa þann 5. október síðastliðinn.