Allt að átta stunda stytting í vaktavinnu
Á vaktavinnustöðum verður vinnuvikan stytt að lágmarki um fjórar stundir, en að hámarki um átta stundir hjá þeim sem vinna á þyngstu vöktunum. Þar sem breytingin krefst mikils undirbúnings og samtala á vinnustað mun hún taka gildi 1. maí á næsta ári. Þar er í raun um leiðréttingu á vinnutíma að ræða vegna neikvæðra áhrifa þungrar vaktabyrði þar sem unnið er allan sólarhringinn á andlega og líkamlega líðan vaktavinnufólks.
Margir þeirra sem hafa valið sér hlutastarf í vaktavinnu segja að ekki sé hægt að vinna í fullu starfi vegna þess hve þung verkefnin eru og svo mikill tími fari í hvíld milli vakta að raunverulegt frí sé lítið sem ekkert. Vaktavinnufólk sem hefur fram að þessu valið að vera í hlutastarfi getur því eftir breytingarnar unnið jafnmarga tíma en aukið starfshlutfall og þar með hækkað laun sín. Meirihluti vaktavinnufólks hjá ríki og sveitarfélögum eru konur og því um tímabæra og mikilvæga jafnréttisaðgerð að ræða.
Það hefði ekki komið til styttingar vinnuvikunnar nema fyrir mikla baráttu og órjúfanlega samstöðu BSRB félaga. Af því megum við vera stolt. Við hvetjum því félagsmenn til að vera virka í samtalinu framundan á sínum vinnustað og njóta aukins frítíma.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.