Ávarp formanns BSRB á 1. maí

Kæru félagar,

Við komum hér saman í dag til að færa fram kröfur okkar um bætt kjör í öllum myndum og til að móta framtíðarsýn um það samfélag sem við viljum búa í - og þeirra sem á eftir okkur koma.

Fyrsta kröfugangan var gengin fyrir 100 árum.

Förum aftur að morgni þess dags. Fulltrúar stéttarfélaganna gengu þá á milli vinnustaða til að hvetja verkamenn og konur til að taka þátt í göngunni og útifundi. Sagt er að þar hafi konur úr Verkakvennafélaginu gengið hvað harðast fram. Ein þeirra var Caroline Siemsen sem hafði gegnt lykilhlutverki við stofnun fyrstu verkakvennafélaganna í landinu.

Caroline vissi að atvinnurekendur höfðu skipað verkstjórum að reka hverja þá stúlku, sem færi úr fiskvinnu þennan dag. Sumir verkstjórarnir sýndu enn frekari hörku til að reyna að koma í veg fyrir að fólk legði niður störf. Þeir tóku á móti konunum með ókvæðisorðum, jafnvel formælingum og klámfengnu tali. Einn verkstjórinn kastaði meira að segja hörðum saltfisk í Caroline, og skipaði starfsfólki sínu að gera hið sama.

Caroline og félagar létu ekki deigan síga heldur fóru á hvern einasta vinnustað. Verkafólk gekk frá vinnu vitandi að það gæti haft alvarlegar afleiðingar. Þetta fólk sýndi hugrekki í miklu atvinnuleysi, vitandi að það gæti leitt til hungurs og ofsókna.

 

Samfélag þess tíma er allt annað en í dag. Ísland var fátækt land, verkafólk var nánast réttindalaust og alfarið undir hælnum á atvinnurekendum með lífsviðurværi sitt, ef það var svo heppið að á annað borð fá vinnu. Sum stéttarfélög voru stofnuð utandyra í leyni því of hættusamt var ef það fréttist af fyrirætlununum.

Laun sem duga fyrir framfærslu, styttri vinnuvika, atvinnubætur gegn atvinnuleysi, örorkutryggingar, slysatryggingar, full borgaraleg- félagsleg og stjórnmálaleg réttindi fyrir fátækt fólk, bygging Landsspítala, heilnæmar og rúmgóðar íbúðir - voru helstu kröfur göngufólks fyrir 100 árum.

Með því að leyfa sér að dreyma stórt, framsýni, harðri baráttu, oft í kjölfar átaka, næstu árin og áratugina tókst þeim að bæta líf þúsunda – og tryggja bjartari framtíð næstu kynslóða.

Svo á þessum degi er vert að muna að ekkert stendur í stað.
Allar framfarir þarf að verja – til að auka hamingju og öllum til heilla.

Við söfnumst því ekki eingöngu saman til að líta yfir farinn veg, heldur til að horfa til framtíðar. Framtíðar þar sem hlustað er á kröfur vinnandi fólks, þar sem verkalýðshreyfingin stendur sterkari en nokkru sinni fyrr með tilheyrandi áhrifum á samfélag byggt á velferð, jafnrétti og jöfnuði. Á þessum tímamótum söfnumst við saman til að móta stefnu okkar fyrir samfélagið til næstu hundrað ára.

 

Kæru félagar,

Við búum í ríku landi – En samt ná stórir hópar láglaunafólks, atvinnulausra, öryrkja og eldra fólks vart að draga fram lífið. Allt of mörg búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað á húsnæðismarkaði sem er byggður upp á markaðsforsendum. Einhver húka í kolakjöllurum, jafnvel fjölskyldur, og svo eru sum sem komast ekki í öruggt skjól. Á sama tíma er ekkert lát á verðbólgunni og vaxtahækkanir bíta fast. Á meðan gerir ríkisstjórnin ekkert til að bregðast við og auka jöfnuð, jafnvel þó hún hafi öll tækin til þess að koma fólki til aðstoðar með húsnæðisstuðningi, vaxta- og barnabótum.

Við stöndum andspænis gríðarlegum ójöfnuði hvort heldur sem er í tekjum, eignum, stöðu á húsnæðismarkaði eða heilsu – og við stöndum líka frammi fyrir bakslagi í jafnréttisbaráttunni, þar sem þrengt er að réttindum og lífsskilyrðum kvenna, hinsegin fólks og fleiri minnihlutahópa.

Nærri hálfri öld eftir fyrsta kvennaverkfallið er framlag kvenna til samfélagsins ekki að fullu metið að verðleikum. Kynskiptur vinnumarkaður er enn helsta ástæða kynbundins launamunar á Íslandi en þar hefur skakkt verðmætamat á vinnuframlagi kvenna mestu áhrifin.

Þvert á það sem mörg telja þá kemur jöfnuður og jafnrétti ekki af sjálfu sér heldur þarf að berjast fyrir því.
Enn hefur ekki tekist að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði kvenna.

Það er kominn tími til að stjórnvöld og atvinnurekendur grípi til aðgerða til að stuðla að raunverulegu jafnrétti og jöfnuði. Það gera þau með því að létta umönnunarbyrði vegna barna og ættingja og með því að beina stuðningi þangað sem hans er mest þörf. Útrýma þarf fátækt með því að hækka lægstu laun verulega og gera þá kröfu að fólk geti lifað af grunnlaunum sínum. Við verðum að tryggja starfsumhverfi sem slítur fólki ekki út fyrir aldur fram og tryggja fjögurra daga vinnuviku hjá öllu launafólki!

Það er fjarstæðurkennt að árið 2023 séu kjarasamningsviðræður 11 aðildarfélaga BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga í svo hörðum hnút að grípa þurfi til verkfalla til að knýja fram sömu laun fyrir sömu störf. Sveitarfélög landsins, sem berja sér á brjóst fyrir jafnlaunaaðgerðir eru einbeitt í að mismuna fólki. Óheiðarleiki, skortur á fagmennsku og þekkingarleysi á lögfræðilegum grundvallaratriðum einkenna framkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það er orðið tímabært að sveitastjórnarfólk spyrji sig hvers vegna öll aðildarfélög BSRB hafi fyrir mánuði síðan lokið við gerð kjarasamninga við ríki og Reykjavíkurborg án átaka.

Sveitarfélögin hafa enn tækifæri til að sjá að sér en að óbreyttu hefjast verkföll 15. maí. Félagar í BSRB standa keik í þessari baráttu enda erum við að verja grundvallarrétt launafólks um sömu laun fyrir sömu störf.

Vinnan skapar auðinn!

Þessi setning hefur endurrómað í 100 ár en samt tönglast fólk enn þann dag í dag á þeirri staðleysu að það sé atvinnulífið sem skapi verðmætin – en ekki launafólk bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera. Þessi tugga ýtir undir þann hugsanagang að hver sé sinnar gæfu smiður og ef fólk nær ekki endum saman, nær ekki að greiða leigu eða kaupa kuldaskó á barnið fyrir veturinn, sé það engum að kenna nema þeim sjálfum.

En það er rangt!

Við erum hluti af samfélagi og það er samábyrgð okkar að tryggja velferð fólks. Það er okkar hreyfingar að halda þessu á lofti. Því enginn annar mun gera það. Það vitum við.

 

Kæru félagar,

Áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir verða ekki leystar af einstökum stéttafélögum, heldur verða þau leyst með samstarfi sterkrar verkalýðshreyfingar sem berst af alefli fyrir fólkið í landinu.

Einstök stéttafélög geta barist af krafti fyrir sitt félagsfólk, og sótt fyrir það mikilvægar kjarabætur. En það er aðeins með samstöðunni, sem við verðum hreyfing, hreyfing sem kemur jafnvægi á efnahagslíf, sem sýnir lýðræðislegt aðhald, sem nær stórum áföngum fyrir velferð almennings og byggir upp bætt velferðarkerfi til framtíðar.

Sama hvað andstæðingar okkar kunna að segja

Þá stendur verkalýðshreyfingin sterk

Og það munu þau finna í kjarasamningslotunni framundan.

Þar sem við munum sækja réttlátar kjarabætur fyrir launafólk

Ekki einungis þær sem birtast í launaumslaginu

Heldur einnig þær sem birtast í mikilvægum samfélagsbreytingum sem varða okkur öll.

 

Caroline Siemsen kann að vera óþekkt nafn í dag en samfélagsgerðin sem við byggjum á byggði á draumum hennar og samferðafólks hennar.

Nafnlausum alþýðuhetjum.

Við erum fjöldahreyfing, fylking, grasrót sem spannar allt litróf samfélagsins og saman sköpum við auðinn.

Það er okkar að taka völdin og byggja upp betra samfélag.