Ekkert gerist af sjálfu sér!

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar
Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar

Til hamingju með daginn!

8. mars er alþjóðlegur baráttudagur kvenna og það er ótrúlegt að hugsa til þess að við sem búum í besta landi heims hvað varðar lýðræði, frelsi og velferð erum enn ekki búin að ná tilætluðum árangri í launajafnrétti og í baráttunni gegn misrétti og ofbeldi gagnvart konum, bæði hvað varðar stöðu þeirra og störf.

Konur eru oft með aukna ábyrgð á sínum herðum þar sem þær bera meiri þunga af þriðju vaktinni innan heimilanna ásamt því að vera í starfi utan heimilisins. Þá eru konur einnig líklegri til að vinna í tímabundnum stöðum og í hlutastarfi til að ná að sinna öllum þeim ríkulegu skyldum sem á þeim hvíla. Konur standa þar af leiðandi oftar verr en karlar þegar litið er til áunna lífeyrisréttinda.

Mikilvægt er að halda í heiðri daga eins og 8. mars þar sem við erum minnt á þennan mikilvæga málstað. Rýnum yfir farinn veg og höldum baráttunni áfram í áttina að jafnrétti og bættri stöðu kvenna á heimsvísu.

Enn er langt í land og ekkert gerist af sjálfu sér.

 

  • Höfundur: Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar.