- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
„Viðræðurnar hafa gengið alltof hægt að mínu mati. Félagsmenn hafa verið samningslausir frá 1. apríl og augljóst að ef ekki fer að komast verulegur skriður á samningaviðræðurnar strax eftir áramótin þá þarf að skoða mjög alvarlega að grípa til aðgerða til að auka þrýsing á viðsemjendur. Þessa kyrrstöðu verður að rjúfa,“ segir Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar um stöðuna í kjaraviðræðum við ríki og sveitarfélög en gert var hlé á þeim í desember vegna jólaleyfa.
Stóru málin þrjú eru lykillinn
„Kröfugerð okkar lá fyrir í febrúar og þá strax hófum við viðræður við Samband sveitarfélaga sem við höfum rætt við á 29 samningafundum á árinu, án niðurstöðu. Það segir sína sögu um hversu hægt gengur,“ segir Arna Jakobína.
Stærstu málin í þessari samningagerð eru á borðum BSRB fyrir hönd aðildarfélaganna en þar er um að ræða vinnutímastyttingu, launaskriðstryggingu og jöfnun launa milli markaða. Arna Jakobína, sem sæti á í samninganefnd BSRB, segir árangur í viðræðum um þessi atriði lykilþátt í því að hreyfing komist á sérmál í viðræðum félaganna við viðsemjendur. Sem kunnugt er lögðu félagsmenn ríka áherslu á vinnutímastyttinguna í aðdraganda kröfugerðar fyrir kjarasamningana og segir Arna Jakobína ljóst að undir samninga verði ekki skrifað nema verulegur ávinningur hafi náðst hvað þann þátt varðar. Línur hafa skýrst hvað varðar vinnutímastyttingu dagvinnufólks en tekist er á um útfærslu hennar fyrir vaktavinnustarfsmenn. Markmið BSRB er að ná fram verulegum bótum á starfsumhverfi vaktavinnufólks. Nú undir árslok fór af stað sérstakur starfshópur viðsemjenda um vaktavinnumálin og mun hann funda áfram strax eftir áramót og skila sínum niðurstöðum inn í kjaraviðræðurnar.
Félagsmenn eðlilega óþreyjufullir
„Mér hefur fundist árið því miður líða án þess að einhver alvöru hreyfing kæmist á kjarasamningagerðina. Þegar sýnt þótti að samningum yrði ekki lokið fyrir sumarfrí var samið um eingreiðslu inn á komandi kjarasamninga sem var greidd út í ágúst, 105.000 kr. fyrir fullt starf. Aðrar bætur hafa okkar félagsmenn ekki fengið frá lokum síðasta samnings og eðlilega eru þeir orðnir mjög langeygir eftir að niðurstaða fáist. En í mínum huga er alveg skýrt að samningarnir velta á þessum þremur stóru atriðum kröfugerðarinnar. Þegar niðurstaða fæst í þau ætti vonandi að vera hægt að ljúka viðræðum um önnur mál nokkuð hratt,” segir Arna Jakobína.
Hvað kauphækkanir varðar segir hún að horfa verði á þrjá þætti í samhengi, þ.e. útfærslu launaskriðstryggingar, jöfnun launa milli markaða og taxtabreytingarnar sjálfar. Öll snerti þessi atriði launakjör launþega.
Aðspurð um samningstímann segir Arna Jakobína ljóst að semja þurfi um afturvirkni til 1. apríl 2019 og að líkindum muni samningar gilda til 2023 sem er hliðstætt og samið var um á almenna vinnumarkaðnum.
„Ég skal alveg viðurkenna að ég er ekkert alltof bjartsýn miðað við þann framgang sem verið hefur. Okkar bíður þess vegna fljótt upp úr áramótum að meta með hvaða hætti við getum sýnt okkar afl og styrk til að þrýsta á um samninga ef ekki verður umtalsverð breyting í viðræðunum. Við getum ekki unað við það að vera svona lengi í viðræðum,“ segir Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar.
Kjölfesta - mars 2024
Fjallað er um starfsemi félagsins á liðnu ári ásamt því sem rætt er við félagsfólk í fjölbreyttum störfum.