- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
Samkomulag um framhald launaþróunartryggingar opinberra starfsmanna sem eru í BSRB eða Alþýðusambandi Íslands var undirritað á skrifstofu BSRB í hádeginu í dag. Laun félaga í BSRB sem starfa hjá sveitarfélögum munu hækka um 1,4 prósent frá 1. janúar 2018 vegna samkomulagsins.
Laun félaga í ASÍ sem starfa hjá sveitarfélögum munu einnig hækka um 1,4 prósent og laun félaga í ASÍ sem starfa hjá ríkinu hækka um 0,5 prósent frá sama tíma. Þessar hækkanir koma til viðbótar við samningsbundnar hækkanir. Samkomulagið um útfærslu launaþróunartryggingar er gert í kjölfar rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins sem gert var í október 2015.
Aðild að samkomulaginu eiga íslenska ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, ASÍ, BSRB og Samtök atvinnulífsins. Í rammasamkomulaginu er kveðið á um að starfsmönnum hjá ríki og sveitarfélögum verði bætt launaskrið á almennum vinnumarkaði verði það meira en hjá hinu opinbera. Með því er ætlunin að tryggja að laun opinberra starfsmanna sitji ekki eftir í almennri launaþróun.
Í samkomulaginu sem undirritað var í dag er horft til launaþróunar frá nóvember 2013 til nóvember 2017. Þetta er í annað skipti sem launaþróunin er mæld. Eftir síðustu mælingu, frá 2013 til 2016, voru laun félagsmanna aðildarfélaga BSRB sem starfa hjá ríkinu hækkuð um 1,3 prósent. Nú hækka laun starfsmanna hjá sveitarfélögum um svipað hlutfall, eða 1,4 prósent.
Laun félaga í aðildarfélögum BSRB sem starfa hjá ríkinu hækka ekki að þessu sinni þar sem laun þeirra hafa hækkað meira en sem nemur hækkunum á almennum vinnumarkaði á tímabilinu. Þriðja og síðasta mælingin á launaskriði, vegna ársins 2018, verður gerð snemma á næsta ári.
Kjölfesta - mars 2024
Fjallað er um starfsemi félagsins á liðnu ári ásamt því sem rætt er við félagsfólk í fjölbreyttum störfum.