- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
segir Sigurður Arnórsson, fyrrverandi formaður Félags opinberra starfsmanna á Vestfjörðum
„Niðurstaða okkar félagsmanna var algjörlega skýr og einróma í kosningunni. Við höfðum í aðdraganda sameiningarinnar efnt til upplýsingafunda á þremur stöðum hér á Vestfjörðum, á Ísafirði, Hólmavík og Patreksfirði, þar sem margir félagsmenn mættu og á þeim fundum kom fram mikill vilji þeirra til sameiningar. Það hefur því verið mjög jákvæð upplifun að taka þátt í þessari sameiningarvinnu og góð tilfinning að sjá sameiningunaverða að veruleika,“ segir Sigurður Arnórsson, fyrrverandiformaður Félags opinberra starfsmanna á Vestfjörðum. Tillaga um sameiningu félagsins við Kjöl stéttarfélag var samþykkt á aðalfundi þann 23. október með öllum greiddum atkvæðum. Félagsmenn í Félagi opinberra starfsmanna á Vestfjörðum voru við sameiningu 265. Félagið hefur rekið skrifstofu á Ísafirði sem nú hefur færst undir merki Kjalar stéttarfélags.
„Efst í huga félagsmanna við sameininguna var að þeir haldi réttindum sínum áfram og hafi aðgang að starfsmanni á skrifstofu hér á Ísafirði eins og verið hefur. Síðan eru orlofsmálin auðvitað stór í huga félagsmanna og að aðgangur sé tryggður að orlofshúsnæði. Ég vil líka nefna mál á borð við starfsmenntasjóð sem margir nýta sér en ég held að það hafi vegið mjög þungt að félagsmenn sáu hve vel Kjölur hefur staðið að starfsmenntamálum,“ segir Sigurður.
Stafræn þjónustuuppbygging á fullri ferð
Sigurður segir stærra félag óhjákvæmilega verða sterkari rödd þegar kemur að kjarasamningamálum. „Við fáum sem ein af deildum innan Kjalar fulltrúa í stjórn félagsins og það skiptir sannarlega máli. En fyrst og fremst verður slagkraftur félagsins meiri þegar kemur að viðræðum um kjaramál við ríki og bæ þegar félagið er orðið þetta stórt. Að mínu mati skiptir stærð félagsins líka máli þegar takast þarf á við umhverfi nútímans, nýja tíma, nýjar kröfur og nýjar lausnir. Við erum á fullri ferð inn í aukna stafræna þjónustu og lítil stéttarfélög hafa enga möguleika til að fylgja henni eftir og leggja í þann kostnað sem sú þróun útheimtir. Möguleikar í stafrænni þjónustu við félagsmenn aukast því með stærra félagi.“
Réttargæslan mikilvæg
Sigurður var formaður Félags opinberra starfsmanna á Vestfjörðum í tvö ár og segir mikinn tíma hafa farið í réttindagæslumál sem gjarnan snerti kjarasamningsbundin atriði og ágreining um þau.
„Í þeim málum verður líka umtalsverð breyting á umhverfinu fyrir okkar félagsmenn þegar þeir verða hluti af stærra stéttarfélagi. Nú fáum við aðgang að lögfræðingi Kjalar stéttarfélags og annarri fagþekkingu sem þar er til staðar sem að mínu mati er mikið framfaraskref fyrir okkur félagsmennina,“ segir Sigurður.
Kjölfesta - mars 2024
Fjallað er um starfsemi félagsins á liðnu ári ásamt því sem rætt er við félagsfólk í fjölbreyttum störfum.