Samtölin um styttingu vinnuvikunnar eru komnar í gang

Eftir áralanga baráttu BSRB fyrir styttingu vinnuvikunnar er loksins komið að því vinnutími félagsmanna fari að styttast. Samtal um hvernig eigi að stytta eru farin í gang á fjölmörgum vinnustöðum og á nokkrum vinnustöðum er vinnunni lokið og búið að ákveða útfærsluna.

Styttingin á að taka gildi í síðasta lagi 1. janúar 2021 hjá þeim sem vinna dagvinnu og þar á starfsfólk að taka virkan þátt í því að ákveða útfærsluna. Á vaktavinnustöðum styttist vinnuvikan frá 1. maí 2021 og verður útfærslan miðlæg enda getur hún kallað á ýmsar breytingar, til dæmis á vaktakerfi og mönnun.

Á vinnustöðum þar sem unnið er í dagvinnu er mikilvægt að standa vel að samtali starfsfólks og stjórnenda þar sem farið er yfir starfsemina og hún í raun endurskipulögð. Markmiðið er að ná gagnkvæmum ávinningi fyrir starfsfólk og vinnustaðinn þannig að þjónusta og afköst verði óbreytt á sama tíma og heilsa og líðan starfsfólks batnar.

Starfsemin á vinnustöðum ríkis og sveitarfélaga er mjög fjölbreytt og því munu ólíkar leiðir henta mismunandi vinnustöðum. Á einhverjum stöðum er hægt að loka fyrr einn dag í viku án þess að þjónustan skerðist. Á öðrum getur starfsfólk skipst á að fara fyrr eða mæta seinna og á enn öðrum er staðan þannig að útfærslan getur verið mismunandi eftir starfsfólki.

Heimilt verður að stytta vinnuvikuna hjá dagvinnufólki í allt að 36 stundir. Styttingin verður að lágmarki fjórar stundir hjá vaktavinnufólki og allt að átta stundir, niður í 32 tíma vinnuviku, hjá þeim sem ganga þyngstu vaktirnar.

Til að auðvelda starfsfólki jafnt sem stjórnendum að undirbúa styttinguna á sínum vinnustað hefur verið útbúið mikið af kynningarefni sem gott er að skoða. BSRB hefur opnað vefinn styttri.is þar sem hægt er að finna greinargóðar upplýsingar. Þá er hægt að finna kynningarmyndbönd, upptökur af kynningarfundum og fleira hér á vef BSRB. Þá má benda á vefinn betrivinnutimi.is þar sem hægt er að sækja ýmsan fróðleik.

Stytting vinnuvikunnar verður stærsta breytingin á vinnutíma launafólks í nærri hálfa öld, frá því 40 tíma vinnuvikan var tekin upp hér á landi. Tökum öll þátt í því að gera drauminn um styttri vinnuviku og fjölskylduvænna samfélag að veruleika.