- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
Covid-19 heimsfaraldurinn hefur haft neikvæð áhrif á ýmsa þætti í lífi ungs fólks. Rannsóknir sýna að fleiri flosnuðu upp úr námi, atvinnutækifærum fækkaði og atvinnuleysi hefur aukist. Nýjar tölur benda þó til þess að aðstæður ungs fólks hér á landi séu að batna hratt og færast í það horf sem var fyrir faraldurinn.
Talsverður fjöldi rannsókna hefur verið gerður á áhrifum faraldursins á ungt fólk víða um heim. Almennt sýna rannsóknirnar að lífskjör þessa hóps hafa versnað. Félagsleg staða þeirra hefur einnig versnað vegna samkomutakmarkanna og annarra inngripa í daglegt líf fólks tengdum faraldrinum. Þetta hefur haft neikvæð áhrif á heilsufar ungs fólks og aukið á geðræn vandamál.
Í flestum ríkjum í okkar heimshluta hafa stjórnvöld gripið til víðtækra aðgerða til að draga úr neikvæðum áhrifum heimsfaraldursins til skamms tíma með víðtækum stuðningi við atvinnurekstur, menntakerfi og almenning. Slíkt þekkjum við vel hér á landi, þar sem hið opinbera hefur gegnt stóru hlutverki við að vinna gegn neikvæðum áhrifum faraldursins á vinnumarkaði, í skólakerfi og á lífskjör almennings og heilsufar.
Þrátt fyrir allar þær opinberu stuðningsaðgerðir sem gripið hefur verið til sýna rannsóknir innan Evrópu að ungu fólki sem hvorki er í námi eða vinnu eða einhvers konar starfsþjálfun (ekki í virkni) fjölgaði frá upphafi heimsfaraldursins og fram á fyrri hluta þessa árs. Aukin áhersla hefur því verið lögð á að fylgjast kerfisbundið með því hve hátt hlutfall ungs fólks er ekki í virkni og mótuð stefna um að gripið verði hratt til aðgerða fari hlutfallið yfir ákveðin mörk á einstökum svæðum.
Sambærilegar upplýsingar liggja ekki fyrir um ungt fólk á Íslandi þó Varða - rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins hafi rannsakað hagi ungs fólks utan vinnumarkaðar og náms. Ákveðnar vísbendingar um virkni ungs fólks hér á landi má fá í vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar um aldurshópinn 16 til 24 ára. Þeim fækkaði milli áranna 2019 og 2020 sem voru í fullu starfi og hlutfastarfi, en fjölgað bæði hópi atvinnulausra og þeirra sem eru í hlutastarfi en vilja vinna meira. Einnig þeim sem eru tilbúnir til vinnu ef þeir teldu vinnu að fá og þeim sem eru utan vinnumarkaðar og ekki í atvinnuleit, en þar getur bæði verið um að ræða skólafólk og fólk sem ekki telst í neinni virkni.
Þessar ítarlegu upplýsingar úr árstölum vinnumarkaðskönnunarinnar er ekki að finna í mánaðarlegri birtingu og liggja því ekki fyrir enn sem komið er fyrir árið 2021. Af mánaðarlegum tölum má þó ráða að staða ungs fólks á vinnumarkaði hafi haldið áfram að versna fram í maí 2021 líkt og sjá má á myndinni hér að neðan. Þar sem sjá má að færri voru starfandi á fyrstu mánuðum ársins 2021 en í sömu mánuðum 2020 og fækkunin er mikil frá árinu 2019. Atvinnulausir voru nokkru fleiri og fjöldi utan vinnumarkaðar stóð í stað.
Þegar horft er á næstu fimm mánuði frá júní og fram í október má sjá að mikill viðsnúningur hefur orðið á aðstæðum ungs fólks á vinnumarkaði, eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Staðan á sumar- og haustmánuðum í ár er svipuð og hún var sömu mánuði 2019 og mun betri en sömu mánuði árið 2020 hvað þessa þætti varðar, það er fjölda starfandi, atvinnulausa og fjölda utan vinnumarkaðar.
Svo virðist því sem aðstæður ungs fólks hér á landi séu að batna hratt og færast í það horf sem var fyrir heimsfaraldurinn, verði ekki bakslag í glímunni við faraldurinn á komandi mánuðum.
Mikilvægt er þó að hafa í huga að heimsfaraldurinn mun að öllum líkindum hafa neikvæð áhrif á lífskjör, félagslega stöðu og heilsufar margra á komandi árum og því mikilvægt að velferðarkerfið styðji vel við bakið á þeim sem verst hafa fundið fyrir afleiðingum hans.
Kjölfesta - mars 2024
Fjallað er um starfsemi félagsins á liðnu ári ásamt því sem rætt er við félagsfólk í fjölbreyttum störfum.