- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
Viðburðurinn Sveitarfélag ársins 2023 fór fram þann 12.október, þar sem niðurstöður könnunarinnar voru kynntar og fjögur sveitarfélög voru útnefnd Sveitarfélög ársins. Útnefningin er á grunni niðurstaðna viðhorfskönnunar félagsfólks 10 bæjarstarfsmannafélaga hjá sveitarfélögum á þeirra félagssvæðum og var könnunin gerð í samstarfi við Gallup. Þetta er annað árið í röð sem slík könnun er gerð og þeim sveitarfélögum veitt viðurkenning sem skara fram úr. Sveitarfélagið Grímsnes- og Grafningshreppur hnepptu fyrsta sætið annað árið í röð. Sveitarfélagið Bláskógabyggð var í öðru sæti og var þetta annað árið í röð sem þau hljóta nafnbótina. Sveitarfélagið Vogar var í þriðja sæti og Skagaströnd í því fjórða.
Tilgangurinn með könnuninni er að hvetja stjórnendur sveitarfélaga til að veita starfsumhverfi meiri athygli og ráðast í umbótaverkefni þar sem þess er þörf. Einnig er ætlunin að niðurstöðurnar skapi almenna umræðu um starfsumhverfi og stjórnun á vinnustöðum, félagsfólki stéttarfélaganna til hagsbóta. Ekki síst er tilgangurinn að veita góðum vinnustöðum viðurkenningu fyrir að hlúa vel að starfsfólki.
Mikill meðbyr var með könnuninni í ár og fjölgaði þátttakendum milli ára. Reiknuð var heildareinkunn út frá níu þáttum sem spurt var um í könnuninni en það voru stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd vinnustaðar, ánægja og
stolt og jafnrétti. Borið saman við niðurstöður könnunarinnar í fyrra fengu launakjörin lakari einkunn í ár en aukin ánægja var með sveigjanleika vinnu og jafnrétti. Mest er óánægja með launakjör á leikskólunum, sér í lagi hjá leikskólaliðum. Niðurstöðurnar leiða t.d. líka í ljós óánægju með hljóðvist hjá starfsfólki leikskóla og íþróttamannvirkja, matar- og kaffiaðstöðu telur starfsfólk í öryggis- og eftirlitsstofnunum ábótavant og sömuleiðis sýnir könnunin að veikleiki er í samskiptum og stjórnun í öldrunarþjónustu. Alls uppfyllti 21 sveitarfélag skilyrði fyrir niðurstöðum til að komast á lista sveitarfélaga með heildareinkunn. Það er fjölgun um sex sveitarfélög frá fyrra ári. Líkt og í fyrra fékk Grímsnes- ogGrafningshreppur flest stig í heildarniðurstöðunum, eða 4.403. Þar á eftir kom Bláskógabyggð með 4.349 stig, þá Sveitarfélagið Vogar með 4.236 stig og í fjórða sæti Sveitarfélagið Skagaströnd með 4.217 stig. Grímsnes- og Grafningshreppur fékk hæstu einkunnir allra fyrir launakjör, vinnuskilyrði, jafnrétti og deildi efsta sætinu hvað varðar þáttinn sjálfstæði í starfi með Bláskógabyggð. Bláskógabyggð var auk þess með hæstu einkunn allra sveitarfélaganna fyrir stjórnun, starfsanda og ímynd. Sveitarfélagið Vogar fékk hæstu einkunn allra sveitarfélaganna í þáttunum sveigjanleiki vinnu og ánægja og stolt.
Niðurstöður könnunarinnar hafa verið teknar saman og gefnar út í skýrslu sem er aðgengileg á heimasíðu verkefnisins.
Viðburðinum var streymt beint á facebook síðu verkefnisins og er upptakan aðgengileg þar.
Kjölfesta - mars 2024
Fjallað er um starfsemi félagsins á liðnu ári ásamt því sem rætt er við félagsfólk í fjölbreyttum störfum.