Sonja Ýr Þorbergsdóttir var endurkjörin formaður BSRB til næstu þriggja ára á 46. þingi BSRB með 97,22 prósent greiddra atkvæða. Þingið, sem nú er nýlokið, var rafrænt vegna sóttvarnaraðgerða þegar það var boðað og var allri málefnavinnu sem til stóð að fara í á þinginu frestað þar til á framhaldsþingi.
Sonja var ein í framboði til formanns, en hún var fyrst kjörin formaður bandalagsins á 45. þingi BSRB í október 2018. Á þinginu var Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, kjörinn í embætti 1. varaformanns BSRB. Þá var Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags í almannaþjónustu, endurkjörin í embætti 2. varaformanns BSRB.
„Nú þegar við virðumst loksins farin að sjá fyrir endann á faraldrinum þurfum við að horfa til framtíðar. Við höfum einstakt tækifæri til að móta það samfélag sem við viljum búa í eftir kófið og við eigum að grípa það tækifæri. Við vitum ekki enn hvaða ríkisstjórn mun taka við eftir kosningarnar en sjáum öll að það eru stór verkefni sem bíða,“ sagði Sonja þegar hún ávarpaði þingið.
„Eitt af því sem BSRB hefur lagt þunga áherslu á undanfarið er staða þeirra stóru hópa opinberra starfsmanna sem hafa verið í framlínunni í heimsfaraldrinum. Í rúmlega eitt og hálft ár hefur álagið á þennan hóp verið gríðarlegt. Ekki bara í vinnunni heldur líka í einkalífinu þar sem margir hafa lokað sig af til að draga sem mest úr líkum á smiti,“ sagði Sonja.
„Hér erum við að tala um starfsfólk sem starfar í nánum persónulegum samskiptum við fólk á spítölum; hjá heilsugæslunni, við sjúkraflutninga og í velferðarþjónustu við aldraða, fatlaða og sjúka. Við erum líka að tala um starfsfólk almannavarna, lögregluna og fleiri ómissandi hópa. Við getum ekki ætlast til þess að þau standi vaktina endalaust án þess að fá eitthvað á móti. Framlínufólkið á skilið miklu meira en þakklætið eitt og sér og við köllum eftir því að það fái álagsgreiðslur í samræmi við það sem þau hafa lagt á sig til að koma samfélaginu okkar út úr þessum heimsfaraldri.“
„Við þurfum líka að huga að heilsu starfsfólks almannaþjónustunnar, sér í lagi þeirra sem hafa hlaupið sífellt hraðar síðustu mánuði og ár. Við vorum ekki enn búin að jafna okkur eftir harkalegan niðurskurð í kjölfar bankahrunsins 2008 þegar faraldurinn skall á. Nú verðum við að staldra við og hugsa um starfsfólkið, til dæmis með því að skima fyrir kulnun og sjúklegri streitu og bregðast við þegar hættumerki koma í ljós. Það er svo miklu betra og ódýrara en að gera ekki neitt og standa svo allt í einu frammi fyrir því að starfsfólkið hverfur frá störfum í stórum stíl af því það getur einfaldlega ekki meir.“
Hægt er að horfa á opnunarávarp formanns BSRB í heild sinni neðst í þessari frétt.
Forsætisráðherra vill réttlát umskipti
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði 46. þing BSRB og sagði að undir ötulli forystu bandalagsins lögðu samtök launafólks hér á landi í samstarfi við norræn systursamtök sín fram þýðingarmikla skýrslu síðastliðið vor um áhrif loftslagsbreytinga á hagkerfi og vinnumarkaða með áherslu á mikilvægi réttlátra umskipta í þeim umfangsmiklu breytingum sem samfélögin standa frammi fyrir.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði þing BSRB.
„Fyrir liggur að nauðsynlegar aðgerðir og aðlögun vegna loftslagsbreytinga hafa í för með sér grundvallar breytingar á framleiðslu-, neyslu- og samgönguháttum sem breyta munu atvinnuháttum og geta haft víðtækar efnahagslegar- og félagslegar afleiðingar. Þetta kallar á nýja nálgun og ný viðfangsefni meðal annars í samtali aðila vinnumarkaðarins. Þar trúi ég því að sú ríka hefð sem við höfum fyrir samtali og samráði milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins mun gagnast okkur vel til að tryggja að umskiptin í átt að kolefnishlutleysi verði árangursrík og réttlát. Því hef ég gert að tillögu minni að þjóðhagsráð taki málefnið til sérstakrar skoðunar og umfjöllunar á vettvangi sínum,“ sagði Katrín.
Katrín sagði að í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga aðildarfélaga BSRB vorið 2020 hafi hún skipað starfshóp með fulltrúum aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um endurmat á störfum kvenna sem falið var að leggja fram tillögur að aðgerðum til að leiðrétta vanmat á hefðbundnum kvennastörfum.
„Starfshópurinn um endurmat á störfum kvenna hefur nú lokið störfum og til að fylgja eftir tillögum hans hef ég nú skipað aðgerðahóp um launajafnrétti með aðkomu aðila vinnumarkaðarins. Ég vænti mikils starfi hans á komandi mánuðum, því þó jafnlaunamál séu auðvitað fyrst og fremst brýnt mannréttindamál sem snýst um jafnrétti á öllum sviðum og fjárhagslegt sjálfstæði sem lykilinn að frelsi kvenna og grundvallar atriði í baráttunni gegn kynbundu ofbeldi, eru þau ekki síður mikilvægt efnahagslegt og félagslegt framfaramál sem eykur verðmætasköpun, velferð, velgengni og hamingju í samfélaginu,“ sagði Katrín að lokum.
Hægt er að horfa á ávarp forsætisráðherra í heild sinni neðst í þessari frétt.
Ný stjórn kjörin á þingi BSRB
Stjórn BSRB samanstendur af formanni, 1. og 2. varaformanni auk sex meðstjórnenda. Þau sex sem kjörin voru í stjórn á þinginu voru þau Árný Erla Bjarnadóttir formaður FOSS, Fjölnir Sæmundsson formaður Landssambands lögreglumanna, Jón Ingi Cæsarsson formaður Póstmannafélags Íslands, Karl Rúnar Þórsson formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar, Sandra B. Franks formaður Sjúkraliðafélags Íslands, Þórveig Þormóðsdóttir formaður Félags starfsmanna stjórnarráðsins. Eftir stjórnarkjörið eru fimm konur og fjórir karlar í stjórn bandalagsins.
Þá voru alls sjö kjörnir varamenn í stjórn BSRB. Það voru þau Marta Ólöf Jónsdóttir formaður Starfsmannafélags Kópavogs, Unnar Örn Ólafsson formaður Félags flugmálastarfsmanna ríkisins, Unnur Sigmarsdóttir formaður Starfsmannafélags Vestmannaeyjabæjar, Magnús Smári Smárason formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Ástríður Sigþórsdóttir formaður Starfsmannafélags Suðurnesja, Edda Davíðsdóttir formaður Starfsmannafélags Mosfellsbæjar, Guðbjörn Guðbjörnsson formaður Tollvarðafélags Íslands. Eftir þingið eru fjórar konur í varastjórn og þrír karlar.