- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
Komið er að lokum árs sem hefur verið viðburðaríkt í starfi Kjalar stéttarfélags. Félagsstarfið hefur verið kraftmikið og stór verkefni að fást við á árinu. Hvað hæst ber stytting vinnuvikunnar sem gert var samkomulag um í kjarasamningum árið 2020. Vinnutímastyttingin hefur lengi verið baráttumál opinberra starfsmanna og er án nokkurs efa ein mesta breyting síðari ára á íslenskum vinnumarkaði. Hann þarf að vera í sífelldri þróun í takti við umhverfið á hverjum tíma og sú reynsla sem nú þegar hefur fengist af vinnuvikustyttingunni sýnir hversu mikils virði hún er félagsmönnum okkar og um leið er ég ekki í vafa um að vinnuveitendur fá með þessu aukna starfsánægju á vinnustöðum. Þess vegna eru það okkur vonbrigði að sjá sveitarfélögin standa langt að baki ríki og Reykjavíkurborg í að tryggja starfsfólki sínu þann þá bót sem í vinnutímastyttingunni felst. En mikilvægasti þátturinn í þeirri vinnu er að tekin voru umbótasamtöl sem starfsmannahópurinn innleiddi í reynd sjálft styttinguna. Eitt af verkefnum Kjalar stéttarfélags á komandi ári verður að þrýsta á um að sveitarfélögin efni þau heit um vinnuvikustyttinguna sem þau gáfu við gerð kjarasamninganna 2019.
Á vormánuðum leituðu fimm stéttarfélög opinberra starfsmanna á landsbyggðinni eftir sameiningu við Kjöl og hófst í framhaldinu undirbúningsvinna og kynning á sameiningunni meðal félagsmanna. Í fjórum þessara félaga var efnt til kosninga um sameininguna nú í haust og var hún í öllum tilfellum samþykkt einróma. Um er að ræða Starfsmannafélag Dala og Snæfellsnessýslu, Félags opinberra starfsmanna á Vestfjörðum, Starfsmannafélag Fjallabyggðar og Starfsmannafélag Fjarðabyggðar. Viðræður eru enn yfirstandandi við fimmta félagið og standa vonir til að niðurstaða um sameiningu þess félags við Kjöl stéttarfélag liggi fyrir innan fárra vikna.
Nýir félagsmenn eru boðnir velkomnir í hópinn og jafnframt vil ég þakka ánægjuleg kynni á kynningar og undirbúningsfundum í aðdraganda sameiningarkosninga í félögunum fjórum. Þátttakendur í þeim fundum voru hátt í 300 og var mjög ánægjulegt að finna þann kraft og félagsáhuga sem fundirnir endurspegluðu. Í mínum huga er enginn vafi að opnberir starfsmenn á landsbyggðinn hafa með þessu stigið stórt skref og styrkt stöðu sína sem eitt af stærstu aðildarfélögum BSRB. Við þessar sameiningar eru skrifstofur Kjalar þrjá (Akureyri, Grunarfirði og Ísafirði) og starfsmennirnir fimm eins og áður hefur verið kynnt.
Mikilvægi þess að standa vörð um réttindi og hagsmuni launþega er síst minna en áður. Í okkar röðum er fjöldi félagsmanna sem starfar í heilbrigðisþjónustu og þarf ekki að fara mörgum orðum um veikburða stöðu hennar. Við þær aðstæður þarf sem aldrei fyrr að gæta hagsmuna starfsfólks, ekki síst þegar starfsemi heilbrigðis og öldrunarþjónustu er færð úr opinberum rekstri í hendur einkaaðilum. Standa þarf öflugan vörð um starfskjör, og þá sér í lagi lífeyrissjóðaaðild sem starfsmenn misstu um leið þrátt fyrir aðildaskiptalög en það mál er til skoðunar, síðan þá líka allar starfsaðstæður og önnur áunnin réttindi starfsfólks þegar slíkar breytingar verða og þá skiptir miklu máli fyrir starfsfólk að hafa að baki sér öflugt stéttarfélag.
Það er því miður full ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu heilbrigðis og öldrunarþjónustu víða um land. Þetta á einnig við um marga aðra þætti í félagsþjónustu sveitarfélaga og því vekur bág fjárhagsstaða margra sveitarfélaga ugg hjá bæði íbúum sveitarfélaganna og starfsfólki. Burtséð frá baráttunni við heimsfaraldurinn þá hlýtur það að vera stærsta markmið stjórnvalda að snúa óheillaþróun í þessum málaflokkum við á næstu árum.
Trúnaðarmannakjör var í september 2020 og var það fyrst núna í nóvember sl. sem við gátum haldið námskeið með þeim, janframt sem nýir trúnaðarmenn mættu sem voru í félögum sem sameinuðust félaginu. Voru miklir fagnaðarfundir og var ekki að heyra annað en þau hafi verið ánægð með að geta komið saman enda margt sem þyrfti að ræða og taka á.
Ágæti félagi!
Fyrir réttu ári fögnuðum við komu bóluefnis til landsins og við leyfðum okkur að horfa bjartsýnum augum til ársins 2021. Við trúðum því að þá værum við komin að vendipunkti í báráttunni við Covid-19. Nú í árslok hefur faraldurinn hins vegar enn á ný breytt um stefnu og tekið yfir daglegt líf okkar. Við þurfum enn á okkar samtakamætti að halda en þurfum líka að horfast í augu við að misskipting þjóða í aðgengi að heilbrigðisþjónustu og bólusetningu er áfram ógn við alheiminn.
Félagsmönnum og starfsmönnum Kjalar stéttarfélags óska ég gleðilegs nýs árs með kærum þökkum fyrir samskiptin á árinu sem er að líða.
Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður
Kjölfesta - mars 2024
Fjallað er um starfsemi félagsins á liðnu ári ásamt því sem rætt er við félagsfólk í fjölbreyttum störfum.