Bókanir

Bókanir

Bókanir með samningi aðila 2024

BÓKUN 1 [2024]

Bókun vegna bakvakta

Samningsaðilar eru sammála um að skipa starfshóp um endurskoðun á fyrirkomulagi bakvakta og útköll þeim tengdum. Í hópnum skulu sitja fulltrúar opinberra launagreiðenda og bandalaga opinbers launafólks auk fulltrúa stéttarfélaga er málið kann að varða.

Starfshópurinn mun kortleggja umfang bakvakta, skoða tíðni og tegundir útkalla og vinna að því að tölfræði vegna bakvakta sé bætt. Vinnan skal meðal annars felast í því að skoða hvernig bakvaktarfrí er tekið og hvort það séu ákveðnir hópar sem ekki eru að fá bakvaktarfrí.

Þá skal hópurinn greina og leggja mat á hvort að fýsilegt sé að bakvaktir gangi upp í vinnuskyldu samhliða því að bakvaktarfrí skv. gr. 2.5.4. falli niður.

Eigi síðar en 1. október 2024 skulu aðilar hafa skipað fulltrúa sína í starfshópinn og skulu fulltrúar launafólks boða til fyrsta fundar. Vinnuhópurinn skilgreinir nánar viðfangsefnið og verklag. Stefnt skal að því að tillögur liggi fyrir eigi síðar en 31. maí 2025.

 

BÓKUN 2 [2024]

Bókun vegna niðurfellingar á gr. 3.2

Þrátt fyrir niðurfellingu á gr. 3.2 eru samningsaðilar sammála um að þeir einstaklingar og/eða starfahópar sem voru með matar og kaffitíma í yfirvinnu sem hluta af vinnuskipulagi fyrir gildistöku kjarasamnings sem undirritaður var árið 2024 og hafa að jafnaði fengið reglubundið slíkar greiðslur skulu halda sambærilegum greiðslum sbr. eftirfarandi: Breytingar skulu ekki leiða til launalækkunnar og gæta skal jafnræðis innan starfahópa.

3.2.1 Sé unnin yfirvinna, skulu vera matartímar 1 klst. kl. 19:00 - 20:00 að kvöldi, kl. 03:00 - 04:00 að nóttu og á tímabilinu 11:30 - 13:30 á frídögum skv. gr.2.1.4. Matartímar þessir á yfirvinnutímabili teljast til vinnutímans.

3.2.2 Sé unnin yfirvinna eða aukavakt, skulu kaffitímar vera kl. 21:00-21:20, 24:00-00:20, 05:40-06:00 og síðustu 15 mín. fyrir dagvinnumörk. Kaffi og matartímar í yfirvinnu á tímabilinu 08:00-17:00 skulu vera þeir sömu og í dagvinnu.

 

BÓKUN 3 [2024]

Mannauðsjóður og mannauðssetur

Aðilar eru sammála um að á gildistíma kjarasamningsins verði Mannauðssjóðir KSG, Kjalar og Samflots sameinaðir í einn sjóð, Mannauðssjóðinn Heklu.

Markmið með sameiningu þeirra er að byggja upp öflugri sjóð sem hefur það hlutverk að veita styrki til fræðsluverkefna á sviði símenntunar, svo sem vegna námskeiða / starfsnáms, námsgagnagerðar, útgáfu á námsefni og önnur verkefni samkvæmt samþykktum sjóðsins.

Þeir sem sótt geta um styrk til sjóðsins eru sveitarfélög, stofnanir þeirra og aðrir vinnuveitendur sem greiða í sjóðinn og stjórnir bæjarstarfsmannafélaga. Stjórn sjóðsins getur að eigin frumkvæði sett á laggirnar verkefni fyrir aðila sjóðsins.

Bókun 3 (2024) byggir á bókun 7 frá árinu 2020.

BÓKUN 4 [2024]

Sjóðir bæjarstarfsmannafélaga

Aðilar eru sammála um að á gildistíma kjarasamningsins muni samráðsnefnd SNS og bæjarstarfsmannafélaga greina tilgang og verkefni sjóða bæjarstarfsmannafélaga til framtíðar með tilliti til sambærilegra sjóða annarra stéttarfélaga sem semja um jafn verðmæt störf í starfsmati.

 

BÓKUN 5 [2024]

Skoðun á tengitöflu við starfsmat

Aðilar eru sammála um að halda áfram greiningu á launa- og tengitöflu sem hófst vorið 2024. Vinnuhópur allra aðila starfsmats sveitarfélaga verði skipaður í þetta verkefni eigi síðar en í ágúst 2024 til að:

    • Greina dreifingu stöðugilda eftir starfsmatsstigum.
    • Skoða mögulegar leiðir til að tengja starfsmatsstig við launatöflu.
    • Kostnaðarmeta hugmyndir að breytingum á tengitöflu/tengireglu.
    • Útfæra áætlun um mögulegar breytingar á tengitöflu/tengireglu í skrefum.
    • Skoða hvort nýta megi mögulegar hækkanir vegna launatöfluauka á kjarasamningstímabilinu 1. apríl 2024 til 31. mars 2028 í verkefnið.
    • Vinnuhópur aðila skilar niðurstöðu til samninganefnda.

 

BÓKUN 6 [2024]

Þróun samstarfs við starfsmatskerfið SAMSTARF

Samningsaðilar eru sammála um það langtímamarkmið að greiða sömu laun fyrir jafnverðmæt störf samkvæmt þeim kjarasamningum sem Samband íslenskra sveitarfélga gerir fyrir hönd þeirra sveitarfélaga sem veita til þess umboð sitt.. Samningsaðilar hafa í því skyni metið störf á grundvelli starfsmatskerfis samningsaðila (SAMSTARF).

Samningsaðilar eru sammála um nauðsyn þess að vinna áfram að umbótum og þróun á starfsmatskerfinu SAMSTARF og umgjörð þess. Aðilar hafa undanfarin ár unnið markvisst að því að skýra umgjörð faglegrar stýringar við starfsmatskerfið til að tryggja að kerfið nái þeim markmiðum sem því er ætlað ásamt því að kerfið þróist og samræmist þeim kröfum sem gerðar eru til þess á hverjum tíma.

Í þeim tilgangi að vinna að áframhaldandi þróun starfsmatskerfisins í þágu virðismats þeirra mikilvægu starfa sem starfsfólk sveitarfélaga vinnur, sameiginlegra hagsmuna starfsfólks og starfseminnar af virðismati starfa og jafnframt að tryggja aðkomu hagsmunaaðila og skýra hlutverk þeirra þar sem þörf krefur, er lagt til að aðilar komi sér saman um utanaðkomandi aðila sem verði falið að gera úttekt annars vegar á verkferlum, vinnulagi, viðtalsferlum, samþykktarferlum og öðrum ferlum starfsmatsins með tilliti til markmiða kerfisins um jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf og hins vegar á stjórnskipulagi kerfisins og getu þess til að mæta hagsmunum hagaðila.

Markmiðið með úttektinni er að greina áskoranir og tækifæri til frekari þróunar starfsmatskerfisins þannig að stuðla megi að betra og skilvirkara verklagi við mat á störfum og tryggja faglegt sjálfstæði kerfisins. Einnig skal meta þörf fyrir breytingar á umgjörð og stjórnskipulagi kerfisins, hlutverk faglegrar stjórnar og þess að koma á sameiginlegri framkvæmdastjórn hagaðila.

Unnið verði að ofangreindu á gildistíma kjarasamnings í samstarfi við önnur stéttarfélög sem samið hafa um starfmatskerfið SAMSTARF og í samstarfi Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Undirbúningur hefjist við gildistöku samninga og úttekt verði hafin fyrir 1. janúar 2025. Stefnt skal að því að úttekt verði lokið eigi síðar en 1. janúar 2026 og skal afrakstur úttektar vera grundvöllur að tímasettum og kostnaðarmetnum aðgerðum í starfsemi og skipulagi SAMSTARFS. Fagleg stjórn SAMSTARF skal bera ábyrgð á framkvæmd þessari og hefur heimild til sinna þeim nauðsynlegu þáttum sem verkefnið kallar á.

Kostnaður af úttekt skiptist milli Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 

BÓKUN 7 [2024]

Um hlutverk stýrihóps

Komi til þess að breytingar á betri vinnutíma dags. 7. maí 2024 nái ekki þeim markmiðum sem lagt er upp með eða álitaefni verða varðandi túlkun á breytingum, þá skal stýrihópur aðila sem skrifuðu undir breytingarnar, fjalla um málið og finna lausn. Stýrihópur mun starfa út samningstímann, 2024-2028.

Þær leiðbeiningar og eftir atvikum úrlausnarefni sem stýrihópurinn gaf út árið 2021 samhliða innleiðingu á ,,Betri vinnutíma” heldur gildi sínu eftir því sem við á. Stýrihópurinn mun koma saman í september 2024 og uppfæra leiðbeiningarnar og eftir atvikum úrlausnarefnin með tilliti til þeirra breytinga sem urðu í kjarasamningum árið 2024.

 

BÓKUN 8 [2024]

Um lífeyrismál

Með hliðsjón af fyrirhugaðri heildarendurskoðun lífeyriskerfisins hér á landi eru samningsaðilar sammála um að á samningstímabilinu verði settur á fót starfshópur sem hafi það hlutverk að rýna fyrirliggjandi rannsóknir og önnur gögn varðandi það hvernig mismunandi lífslíkur og lífsgæði fólks eru eftir starfsstéttum. Einnig að koma með tillögur um hvort og hvernig þær lífslíkur og lífsgæði gætu haft áhrif á ákvörðun lífeyrisréttinda þeirra, svo sem snemmtöku lífeyris. Tillögum hópsins er ætlað að undirbyggja frekara samtal um framtíðarskipan lífeyrismála.

BÓKUN 9 [2024]

Um sérákvæði

Aðilar eru sammála um að sérákvæði einstakra stéttarfélaga sem fylgdu fyrri kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga, haldi áfram gildi sínu.

Eldri bókanir:

BÓKUN 1 [2023]

Samræming kjarasamninga

Vegna sameiningar Starfsmannafélags Dala- og Snæfellssýslu, Félags opinberra starfsmanna á Vestfjörðum, Starfsmannafélags Fjarðabyggðar og Starfsmannafélags Fjallabyggðar við Kjöl-stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu eru samningsaðilar sammála um að kjarasamningar gilda með þeim breytingum sem samkomulag þetta felur í sér. Á samningstímanum verður unnið að samræmingu kjarasamninganna.

BÓKUN 5 [2015]

Trúnaðarmenn

Aðilar eru sammála um að réttur trúnaðarmanna til að sækja trúnaðarmannanámskeið án skerðingar á reglubundnum launum í allt að eina viku á ári, á við um vaktavinnufólk sem heldur sínu vaktaálagi.

 

BÓKUN 6 [2020]

Símenntun starfsfólks sundlauga

Starf sundlaugarvarðar felst m.a. í sundlaugargæslu samkvæmt reglugerð nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum. Samkvæmt reglugerðinni ber eigendum sund- og baðstaða að sjá til þess að starfsfólk fái reglulega starfsþjálfun.

Aðilar eru sammála um að forstöðumaður sundlaugar beri að skapa sundlaugarvörðum svigrúm til sundþjálfunar, verklegra æfinga vegna björgunar í laug og æfingum vegna neyðaráætlunar. Útfærsla símenntunar á vinnustaðnum skal vera hluti af starfsþróunaráætlun hans og unnin í samstarfi vinnuveitenda og starfsfólks.

 

BÓKUN 3 [2015]

Um launaupplýsingar

Samningsaðilar eru sammála um að á gildistíma kjarasamnings verði samkomulag um skil á launaupplýsingum endurskoðað.

 

BÓKUN 3 [2014]

Um jafnræði í launum óháð stéttarfélagsaðild

Aðilar eru sammála um að beina þeim tilmælum til sveitarfélaga að jafnræðis verði gætt í launum þeirra starfsmanna sem vinna sömu og/eða sambærileg störf innan sveitarfélags, óháð stéttarfélagsaðild.