Þrettándi (13) kafli er um Launaseðill, félagsgjöld og iðgjaldagreiðslur

13  Launaseðill, félagsgjöld og iðgjaldagreiðslur

13.1 Launaseðill

13.1.1 Við greiðslu launa til starfsmanns á hann rétt á að fá launaseðil merktan nafni sínu. Á launaseðli skulu tilgreind föst laun starfsmanns það tímabil sem greiðslan tekur til grunnlaunaflokkur ef aðstæður leyfa, fjöldi yfirvinnustunda, uppsafnaður frítökuréttur og sundurliðun einstakra tekna og frádráttarliða, sem leiða til útgreiddra launafjárhæða.

Sveitarfélagi er heimilt að senda launaseðla með rafrænum hætti. Óski starfsmaður eftir því að fá seðil á pappírsformi sendan heim, skal verða við því.

13.2 Félagsgjöld

13.2.1 KJÖLUR á rétt til þess að launagreiðandi innheimti fyrir það félagsgjöld. Skal það afhenda honum lista eða gögn um þá sem gjaldskyldir eru með þeim upplýsingum sem nauðsyn krefur. Félagsgjöld skulu innheimt mánaðarlega og skilað til félaganna fyrir 10. dag sama mánaðar. Innheimtu má þó hafa með öðrum hætti en hér er ákveðið, ef um það er samkomulag. Samningsaðilar munu sameiginlega leitast við að gera og viðhalda félagsskrám starfsmannafélagsins vegna gjaldskyldu skv. framansögðu.

13.3 Orlofssjóður

13.3.1 Launagreiðandi greiðir 0,90% af heildarlaunum félaga í orlofssjóð KJALAR. KILI er heimilt að flytja greiðslur vinnuveitenda í orlofssjóðinn til Fræðslusjóðs KJALAR, þó að hámarki 75%.

Sjóðsgjald var 1% en frá 1. janúar 2020 er gjaldið 0,90%.

13.4 Starfsmenntunarsjóður

13.4.1 Launagreiðandi greiðir sérstakt gjald í Fræðslusjóð KJALAR.

Gjald þetta skal nema 0,4% af heildarlaunagreiðslum til félaga KJALAR.

Sjóðsgjald var 0,3% en eftir 1. maí 2014 er gjaldið 0,4%.

13.5 Mannauðssjóður

13.5.1 Launagreiðandi greiðir sérstakt gjald í Mannauðssjóð Kjalar stéttarfélags. Gjald þetta skal nema 0,20% af heildarlaunum til félaga starfsmannafélagsins.

Mannauðssjóðurinn hefur eina stjórn með jafnri stjórnarþátttöku beggja samningsaðila.

Sveitarfélög, stofnanir og aðrir vinnuveitendur sem greiða í sjóðinn geta sótt um styrki vegna símenntunarverkefna fyrir starfsmenn. Samþykktir sjóðsins og aðrar upplýsingar um hann eru á vefsíðunni

https://www.kjolur.is/is/styrkir/sveitarfelog/mannaudssjodur

Frá 1. janúar 2020 er gjaldið 0,20%.

13.6 Vísindasjóður

13.6.1 Launagreiðandi greiðir mánaðarlega framlag í vísindasjóði KJALAR stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu sem nemur 1,5% af dagvinnulaunum starfsmanna með háskólapróf enda sé gerð krafa um slíka menntun í viðkomandi starf. Sjóðurinn greiðir meðal annars styrki til rannsóknar- og þróunarverkefna, námskeiðsgjöld, ferða- og dvalarstyrki og styrki vegna námskeiða sem félagið stendur fyrir.

Styrkirnir greiðast samkvæmt nánari reglum er sjóðstjórn setur. Starfsmaður sem fer í námsleyfi skv. reglum sjóðsins haldi ráðningu og ráðningartengdum réttindum.

13.7 Lífeyrissjóður

13.7.1 Aðild að lífeyrissjóði

Starfsmenn sem heyra undir samning þennan skulu eiga aðild að Brú lífeyrissjóði sveitarfélaga eftir því sem lög og samþykktir sjóðsins segja til um. Við upphaf ráðningar eiga starfsmenn val um það hvort iðgjald þeirra fari til A eða V-deildar sjóðsins.

13.7.2 Lífeyrissjóðsiðgjöld

Iðgjald starfsmanns sem aðild á að A-deild Brúar lífeyrissjóðs skal vera 4% af heildarlaunum starfsmanns og mótframlag vinnuveitanda skal vera 11,5%.

Eigi starfsmaður rétt til jafnrar réttindaávinnslu samkvæmt samþykktum A-deildar Brúar lífeyrissjóðs og sé vinnuveitandi annar en sveitarfélag, stofnun sveitarfélags, fyrirtæki eða önnur rekstrareining sem að hálfu eða meirihluta er í eigu sveitarfélaga og rekin sem fjárhagslega sjálfstæð eining sbr. 60. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 skal vinnuveitandi til viðbótar greiða sérstakt iðgjald vegna lífeyrisauka. Um prósentu sérstaks iðgjalds hverju sinni fer samkvæmt samþykktum Brúar lífeyrissjóðs.

Iðgjald starfsmanns sem aðild á að V-deild Brúar lífeyrissjóðs skal vera 4% af heildarlaunum starfsmanns og mótframlag vinnuveitanda skal vera 11,5%.

Þeir starfsmenn sem 1. janúar 1999 voru í Lífeyrissjóði starfsmanna Akureyrarbæjar hafa þrátt fyrir 1. og 2. mgr. þessarar greinar heimild til að vera áfram í LSA nema þeir óski að flytja sig til A-deildar LSS. Sjóðsfélagi greiðir 4% af dagvinnulaunum, desember- og orlofsuppbótum og vaktavinnufólk af vaktaálagi. Launagreiðandi greiðir 8% af sömu dagvinnulaunum, desemberorlofsuppbótum og af vaktaálagi vaktavinnufólks.

13.7.3 Viðbótarframlög til lífeyrissparnaðar

Nýti starfsmaður lögbundinn rétt sinn til lífeyrissparnaðar, greiðir vinnuveitandi mótframlag til jafns á móti séreignarlífeyrissparnaði starfsmanns, allt að 2%.

13.8 Styrktarsjóður BSRB[1]

13.8.1 Iðgjaldagreiðslur launagreiðanda í Styrktarsjóð BSRB

Iðgjald launagreiðanda skal nema 0,75% af heildarlaunum þeirra starfsmanna hlutaðeigandi launagreiðanda sem falla undir samkomulag þetta. Iðgjaldið skal greitt mánaðarlega eftirá skv. útreikningi launagreiðanda.

KJÖLUR stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu á aðild að Styrktarsjóði BSRB sem var stofnaður með reglugerð 6. desember 2001. Félagsmenn/sjóðfélagar geta sótt um bætur til sjóðsins í slysa- og veikindatilvikum eftir að veikindarétti lýkur hjá vinnuveitanda. Þá geta þeir sótt um styrki vegna fyrirbyggjandi aðgerða á sviði heilsueflingar og forvarna gegn sjúkdómum og veitir fæðingarstyrki. Upplýsingar um hann er að finna á vefsíðunni:

http://styrktarsjodur.bsrb.is/forsida/
[1] Hét áður fjölskyldu og styrktarsjóður sem heildarsamtökin BSRB, KÍ og BHM ráku sameiginlega frá stofnun hans 1. janúar 2001.

13.9 Starfshæfingarsjóður

13.9.1 Iðgjald launagreiðanda í Starfsendurhæfingarsjóð skal nema 0,13% af heildarlaunum félagsmanna.

VIRK Starfsendurhæfingarsjóður

Hlutverk VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs er að draga markvisst úr líkum á að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna langvarandi veikinda eða slysa. Áhersla er lögð á að koma snemma að málum og viðhalda vinnusambandi einstaklinga með virkni og öðrum úrræðum. Einstaklingar sem ekki geta sinnt starfi sínu sökum heilsubrests og stefna að aukinni þátttöku á vinnumarkaði eiga rétt á þjónustu ráðgjafa VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs. Um er að ræða ráðgjöf og þjónustu á sviði starfsendurhæfingar sem er starfsmönnum að kostnaðarlausu og miðuð við metnar þarfir hvers og eins.

13.10 Félagsmannasjóður

13.10.1 Félagsmannasjóður

Launagreiðandi greiðir mánaðarlega framlag í Félagsmannasjóð sem nemur 2,2% af heildarlaunum starfsmanna.
Úthlutun úr sjóðnum skal fara fram 1. febrúar ár hvert samkvæmt stofnskrá
sjóðsins.
Greinin gildir ekki um þá starfsmenn er njóta styrkja samkvæmt gr. 13.6.1.