47. þingi BSRB lokið

Þingfulltrúar Kjalar stéttarfélags á þinginu
Þingfulltrúar Kjalar stéttarfélags á þinginu

47. þingi BSRB er lokið. Yfirskrift þingsins var afl í þágu almennings.

 Kjölur stéttarfélag átti 16 þingfulltrúa á þinginu en yfir 200 þingfulltrúar mættu frá 20 aðildarfélögum BSRB. Eitt meginmarkið þingsins felst í mótun áherslna bandalagsins með gerð stefnu til næstu þriggja ára eða þar til næsta þing er haldið. Stefnan er grundvöllur alls starfs bandalagsins næstu árin og forsenda þeirrar samstöðu sem nauðsynleg er til að ná fram markmiðum í þágu félagsfólks aðildarfélaga BSRB.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB setti þingið.

Í setningaræðu formanns voru efnahagsmálin henni hvað mest í huga.

,,Við hjá BSRB höfum gagnrýnt stefnu stjórnvalda sem byggist á úreltum hagfræðikenningum sem dreifir verðmætunum frá heimilum og litlum
fyrirtækjum yfir til þeirra sem mestar eignirnar eiga. Til þeirra sem græða mest á nýtingu okkar sameiginlegu auðlinda, finna minnst fyrir verðbólgunni og græða mest á háu vaxtastigi."

,,Leiðin fram á við felst í samfélagslegri sátt um nýja efnahagsstefnu. Sátt um að skapa skuli mannsæmandi störf fyrir öll og dreifingu verðmæta í gegnum réttláta og framsækna skattastefnu. Þar sem félagslegar aðgerðir eru í forgrunni og niðurskurðarstefna heyrir sögunni til."

Nálgast má setningaræðu formanns BSRB í heild sinni hér.

Stöðugleikasamningarnir, gríðarlegur þáttur í baráttunni við verðbólguna.

 Við setningarathöfn tók einnig Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra til máls þar sem hann sagði ríkisstjórnina leggja mikla áherslu á gott samstarf við samtök launafólks síðustu ár. „Þeir samningar sem undirritaðir voru á almennum markaði í vor og nefndir hafa verið stöðugleikasamningarnir eru gríðarlega mikilvægur þáttur í baráttunni við verðbólguna. Ekki aðeins vegna þess að niðurstaðan var hófsöm heldur ekki síður vegna þess að samningarnir fólu í sér sameiginlega sýn á hvert meginvandamálið væri: Verðbólgan. Aðilar hringinn í kringum samningaborðið á almennum og opinberum markaði sýndu framtíðarsýn, sýndu hugrekki og síðast en ekki síst sýndu samningarnir að það ríkti traust milli aðila. Og það er kannski stærsti sigurinn,“

Almannaþjónustan heldur samfélaginu saman.

 Svandís Svavarsdóttir, innviðarráðherra ávarpaði þingið á setningarathöfninni en þar hafði hún meðal annars þetta að segja: „Talið um báknið og um að of mörg vinni hjá hinu opinbera snýst í raun um atlögu að þessum samfélagsinnviðum og þeirri samfélagsgerð sem leggur áherslu á að velferð, menntun og heilbrigðisþjónusta eigi að standa öllum til boða óháð efnahag. Of oft er talað niður til heilu stéttanna sem, frá morgni til kvölds, sinna mikilvægum og krefjandi verkefnum í þágu samfélagsins. Almannaþjónustan er samfélagið og samfélagið gerir atvinnulífinu kleift að starfa. Hinn svokallaði frjálsi markaður gleymir því stundum að opinber þjónusta getur ekki valið sig frá verkefnum, Við hættum ekki bara að slökkva elda, sinna sjúkum og slösuðum, sinna börnum, öldruðum, mennta þjóðir og rannsaka og vakta veður, náttúruvá og vistkerfi. Það getur einkageirinn gert, hann bara ákveður að hætta verkefnum ef þau eru flókin eða erfið eða skila ekki hagnaðinum, gróðanum sem lagt var upp með. Almannaþjónustan tekur á öllu hinu, öllu því fjölmarga sem er of mikilvægt til að láta hinn svokallaða markað leysa. Almannaþjónustan er það sem heldur samfélaginu saman,“ 

Ný stjórn kosin til næstu þriggja ára.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir er endurkjörinn formaður BSRB, 1. varamaður er Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna og 2. varamaður BSRB er Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu.

Stjórn BSRB samanstendur af formanni, 1. og 2. varaformanni auk sex meðstjórnenda. Þau sex sem kjörin voru í stjórn á þinginu eru:

  • Árný Erla Bjarnadóttir FOSS
  • Gunnsteinn R. Ómarsson Sameyki
  • Jóhanna Fríður Bjarnadóttir Póstmannafélags Íslands
  • Karl Rúnar Þórsson Starfsmannafélag Hafnarfjarðar
  • Marta Ólöf Jónsdóttir Starfsmannafélag Kópavogs
  • Sandra B. Franks Sjúkraliðafélag Íslands

 

Þá voru alls sjö kjörnir varamenn í stjórn BSRB. Það voru þau:

  • Bjarni Ingimarsson Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
  • Unnar Örn Ólafsson Félag flugmálastarfsmanna ríkisins
  • Edda Davíðsdóttir Starfsmannafélag Mosfellsbæjar
  • Guðbjörn Guðbjörnsson Tollvarðafélag Íslands
  • Trausti Björgvinsson Starfsmannafélag Suðurnesja
  • Unnur Sigmarsdóttir Starfsmannafélag Vestmannaeyja
  • Guðbrandur Jónsson, Félag starfsmanna stjórnarráðsins

Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagræðingur BSRB fer yfir efnahagsmál

Frá nefndarstarfi í starfskjaranefnd þingsins

Úr fyrirlestri Herdís Steingrímsdóttir, Dósent í hagfræði við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn (CBS) sjá á bsrb.is