- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
Af þeim 15 sveitarfélögum sem komust á lista í könnuninni sveitarfélags ársins 2022 voru sex á félagssvæði Kjalar stéttarfélags. Af þeim fékk Skagaströnd flest stig eða 4,037 en stigafjöldi í könnuninni var að meðaltali 3.982.
Kjölur stéttarfélag stóð ásamt níu öðrum bæjarstarfsmannafélögum að gerð könnunarinnar sveitarfélag ársins en spurningar í könnuninni voru lagðar fyrir félagsfólk stéttarfélaganna í strörfum hjá sveitarfélögum síðastliðið vor. Könnunin var gerð í samstarfi við Gallup og er byggð upp með hliðstæðum hætti og útnefningar fyrirtækis ársins og stofnunar ársins byggja á. Útnefning sveitarfélags ársins verður hér eftir árleg.
PDF útgáfa af blaði Sveitarfélags ársins 2022
Níu þættir mældir
Fullnægjandi svarhlutfall fékkst í fimmtán sveitarfélögum og fékk Grímsnes- og Grafningshreppur flest stig. Þeir níu þættir sem könnunin náði til voru stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægja og stolt og jafnfrétti.
Sveitarfélögin á félagssvæði Kjalar stéttarfélags raðast þannig að Skagaströnd varð í 7. sæti, þá kom Akureyrarbæjar í 8. sæti og Dalvíkurbyggð í 9. sæti. Ísafjarðarbær varð í 11. sæti og Borgarbyggð í 12. sæti. Loks varð Skagafjörður í 14. sæti.
Launakjörin fá lága einkunn
Skagaströnd var eina sveitarfélagið af þessum sex sem var yfir meðaltali í heildareinkunn. Hæsta einkunn fékk sveitarfélagið hjá starfsmönnum sínum fyrir sveigjanleika í starfi og var það raunar hæsta einkunnin í þeim flokki hjá öllum sveitarfélögunum.
Akureyrarbær fékk lægsta einkunn allra sveitarfélaganna fimmtán fyrir launakjör. Hæstu einkunnirnar fékk sveitarfélagið frá starfsmönnum sínum fyrir jafnrétti, ánægju og stolt og starfsanda.
Starfsfólk Dalvíkurbyggðar var ánægðast með starfsanda en þar, líkt og hjá mörgum öðrum sveitarfélögum, fengu launakjörin lökustu einkunnina.
Hjá Ísafjarðarbæ var hæsta einkunnin fyrir starfsanda en lægsta fyrir launakjör. Það sama gildir um viðhorf starfsmanna hjá Borgarbyggð.
Í Skagafirði voru starfsmenn einnig óánægðastir með launakjörin en þar fékk sjálfstæði í starfi hæstu einkunnina.