- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
Sveitarfélagið Skeiða- og Gnúpverjahreppur fékk hæstu einkunn í vali á sveitarfélögum sem hljóta nafnbótina Sveitarfélag ársins 2024 en sú útnefning var nú þriðja árið í röð. Fjögur sveitarfélög hlutu nafnbótina í ár og eru þessi: Skeiða- og Gnúpverjahreppur 4.448 stig, Sveitarfélagið Skagaströnd 4.397 stig, Bláskógabyggð 4.275 stig og Sveitarfélagið Vogar 4.142 stig.
Útnefningin er á grunni niðurstaðna viðhorfskönnunar félagsfólks 10 bæjarstarfsmannafélaga hjá sveitarfélögum á þeirra félagssvæðum og var könnunin gerð í samstarfi við Gallup. Þetta er þriðja árið í röð sem slík könnun er gerð og sem fyrr var þeim fjórum sveitarfélögum veitt viðurkenning sem skara fram úr. Svarendur í könnuninni hafa aldrei verið fleiri en nú eða ríflega 1900.
Tilgangurinn með könnuninni er að hvetja stjórnendur sveitarfélaga til að veita starfsumhverfi meiri athygli og ráðast í umbótaverkefni þar sem þess er þörf. Markmiðið er einnig að niðurstöðurnar skapi almenna umræðu um starfsumhverfi og stjórnun á vinnustöðum, félagsfólki stéttarfélaganna til hagsbóta. Ekki síst er tilgangurinn að veita góðum vinnustöðum viðurkenningu fyrir að hlúa vel að starfsfólki.
Reiknuð var heildareinkunn út frá níu þáttum sem spurt var um í könnuninni en það eru stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd vinnustaðar, ánægja og stolt og jafnrétti. Þegar niðurstöður eru bornar saman við sambærilega könnun árið 2023 sést að allir þættirnir níu fengu betri einkunn í ár.
Könnunin endurspeglar að starfsfólk sveitarfélaganna er almennt ánægt með stjórnendur, stjórnun, starfsskilyrði og starfsanda en tæplega þriðjungur er óánægður með launakjör. Hlutfall þeirra sem lýsa ánægju með launakjörin er samt nokkru hærra en í fyrra eða ríflega 44% nú.
Úr niðurstöðunum má einnig lesa að víða er talsverða óánægju með hljóðvist, einkum á leikskólum. Þá má sjá óánægju fólks í öryggis- og eftirlitsstörfum með matar- og kaffiaðstöðu og vinnu- og skrifstofurými.
Segja má að Skeiða- og Gnúpverjahreppur hafi komið sem stormsveipur inn á listann í ár. Sveitarfélagið hefur ekki áður náð inn á lista fjögurra efstu í könnuninni en fór nú beint í efsta sæti stigalistans. Skeiða- og Gnúpverjahreppur var með hæstu einkunn allra sveitarfélaganna í sjö flokkum af níu sem spurt var um þ.e. í flokkunum stjórnun, starfsandi, launakjör, sjálfstæði í starfi, ímynd sveitarfélags, ánægja og stolt og jafnrétti.
Sem fyrr segir stóðu tíu bæjarstarfsmannafélög að könnuninni í samstarfi við Gallup. Þau eru: Starfsmannafélag Mosfellsbæjar, Starfsmannafélag Vestmannaeyja, Starfsmannafélag Garðabæjar, Starfsmannafélag Suðurnesja, Starfsmannafélag Kópavogs, Starfsmannafélag Hafnarfjarðar, Kjölur stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu, FOSS stéttarfélag í almannaþjónustu, Starfsmannafélag Húsavíkur og Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi.
Frekari upplýsingar um könnunina:
Tómas Bjarnason, Gallup; tomas.bjarnason@gallup.is / 860 1025