- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
Nú þegar líður að áramótum vil ég færa félagsmönnum Kjalar stéttarfélags kærar þakkir fyrir frábært samstarf á árinu sem er að líða. Þeim þakka ég mikla þátttöku í starfi félagsins, í atkvæðagreiðslum um boðun verkfalls og kjarasamninga sem og þátttöku í fundum vegna styttingar vinnuvikunnar. Samstaða félagsmanna sýndi og sannaði hverju við fáum áorkað þegar við snúum bökum saman. Fyrir stjórn félagsins er afar mikilvægt að hafa að baki sér samstíga hóp kraftmikilla félagsmanna og fyrir það erum við þakklát.
Tímamóta samningar við óvenjulegar aðstæður
Fyrir réttu ári bárum við þá von í brjósti að kjarasamningaviðræður færu á fullt skrið svo hægt yrði sem fyrst að ganga frá samningum sem þá voru búnir að vera lausir allt of lengi. Að morgni 9. mars var skrifað kjarasamning við sveitarfélögin og samningur við ríkið leit dagsins ljós í kjölfarið en samkomulag náðist þó ekki fyrr en boðað hafði verið til verkfalls BSRB félaganna hjá ríki, sveitarfélögum og Reykjavíkurborg. Samningagerðin var að þessu sinni við einstakar aðstæður því neyðarástandi hafði verið lýst vegna kórónuveirufaraldursins og öll starfsemi í þjóðfélaginu var hratt að færast í annan og óþekktan gír. Til að mynda var af þessum ástæðum ekki hægt að kynna samningana með hefðbundnum hætti á fundum á vinnustöðum og víðar. Kynningin var því eingöngu rafræn og tóku félagsmenn þessari nýbreytni vel, líkt og þátttaka í atkvæðagreiðslu um samningana sýndi.
Vegna faraldursins var aðalfundi félagsins einnig frestað frá vori fram í september. Þá var staða faraldursins aftur tekin að versna eftir að hafa verið góð í sumar og var aðalfundurinn því að endingu haldinn með rafrænum hætti.
Baráttan um styttingu vinnuvikunnar loks í höfn
Kjarasamningarnir boðuðu nýja og betri tíma með styttingu vinnuvikunnar sem hefur verið baráttumál okkar til margra ára. Fyrir dagvinnufólk var samið um að stytta megi vinnuvikuna frá 1. janúar 2020 í 36 stundir á viku í kjölfar umbótasamtals á hverjum vinnustað. Á vaktavinnustöðunum verður styttingin að lágmarki úr 40 stunda vinnuviku í 36 og hjá þeim sem eru á erfiðustu vöktunum styttist vinnuvikan niður í 32 stundir. Útfærslan á vaktavinnustöðum er flóknari en þar sem aðeins er unnið í dagvinnu og því var samið um að breytingarnar tækju gildi á vaktavinnustöðum þann 1. maí næstkomandi.
Með þessu er verið að minnka mun á milli dagvinnufólks og vaktavinnufólks þar sem allt fyrirkomulag vaktafólks er fært nær dagvinnufólki. Þar á meðal má nefna að frí vegna vinnu á rauðum dögum er gefið sem næst þeim dögum en ekki safnað upp, kaffitímagreiðsla er felld niður en þess í stað sett í nýtt greiðsluform sem nefnist vaktahvati. Hjá vaktavinnufólki hafa matar- og kaffitímar ekki verið skilgreindir sérstaklega en vaktavinnufólk hefur fengið sín neysluhlé á þeim tímum sem almennt eru matarhlé hjá öðrum. Samkvæmt samningunum stendur dagvinnufólki til boða að hafa ekki sérstaka matar- og kaffitíma en engu að síður verði tekin neysluhlé.
Stöndum vörð um störfin
Af vettvangi BSRB hafa stjórnvöldum verið send skýr skilaboð að undanförnu og þau minnt á að tryggja verði afkomu heimilanna í gegnum faraldurinn og í kjölfar hans til að sporna við auknum ójöfnuði. Ólíkt bankakreppunni eru það frekast starfsmenn í lægst launuðu störfunum sem hafa misst atvinnu sína vegna faraldursins og atvinnuleysi er í sögulegu hámarki. Starfsfólki í almannaþjónustu hefur sem betur fer ekki verið sagt upp vegna faraldursins enda yrði það sem olía á eld þar sem opinberir starfsmenn skipa framlínusveitir í baráttunni við faraldurinn. Starfsfólk í heilbrigðisþjónustu, grunnskólum og leikskólum er meðal þeirra stétta sem eiga hvað stærstan þátt í að hafa haldið atvinnulífinu og þjóðfélaginu gangandi við þessar krefjandi aðstæður. Við munum brýna stjórnvöld til að standa við þá stefnu að þjóðfélagið vaxi út úr kreppunni í stað þess að ráðist verði í harkalegan niðurskurð eins og raunin varð í kjölfar bankakreppunnar.
Ágæti félagi!
Með komu bóluefnis til landsins nú skömmu fyrir áramót og fyrstu bólusetningum skulum við leyfa okkur að horfa bjartsýnum augum til ársins 2021. Verum samt þolinmóð og höfum í huga að enn er langt í land í heiminum öllum. Lönd eru misvel í stakk búin að kaupa bóluefni og ná til síns fólks og því má búast við að á heimsvísu muni áhrifa faraldursins gæta enn um sinn.
Félagsmönnum Kjalar stéttarfélags óska ég gleðilegs nýs árs með kærum þökkum fyrir samskiptin á árinu sem er að líða.
Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður