- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
Starfsfólk sjúkrahúsa sem áður bar starfsheitið læknaritarar fékk árið 2019 starfsheitið heilbrigðisgagnafræðingar. Til að útskrifast sem heilbrigðisgagnafræðingur þarf að ljúka tveggja ára diplómanámi frá Háskóla Íslands sem bæði felur í sér 90 eininga (ECT) bóklegt nám og starfsnám en þeir læknaritarar sem höfðu fengið löggildingu árið 2019 ljúka náminu á styttri tíma.
Nú eru 8 starfsmenn á Sjúkrahúsinu á Akureyri í náminu og ein þeirra er Barbara Arna Hjálmarsdóttir sem starfar á bæklunarskurðdeild. Hún hefur starfað sem læknaritari um 12 ára skeið og var með löggildingu í starfi en segir nýja starfsheitið mun betur lýsa þeim yfirgripsmiklu verkefnum sem heilbrigðisgagnafræðingar annast. Námið segir hún afar gagnlegt.
Rétt meðferð gagna mikilvæg
„Þetta er yfirgripsmikið nám, krefjandi en geysilega skemmtilegt,“ segir Barbara Arna sem mun ljúka náminu nú í vor.
„Mér finnst ég læra margt nýtt, jafnvel þó ég hafi góða innsýn í starfið. Við erum að læra mikið um lagalegu hliðar starfsins; persónuverndarlöggjöfina og meðferð persónuupplýsinga, lagaákvæði um réttindi sjúklinga, lög um sjúkraskrár og margt fleira. Í okkar starfi erum við alla daga með mjög viðkvæmar persónugreinanlegar upplýsingar í höndum sem miklu skiptir að rétt sé með farið. Þess vegna finnst mér nafnið heilbrigðisgagnafræðingur lýsa starfssviði okkar mjög vel,“ segir Barbara Arna.
Mikil vinna að baki hverri heimsókn sjúklings
Starf heilbrigðisgagnafræðings felur í sér mikil samskipti bæði við sjúklinga og annað fagfólk sjúkrahússins. „Okkar samskipti eru þverfagleg og taka til t.d. hjúkrunarfræðinga, lækna, sjúkraþjálfara og fleiri faghópa en mest eru þau þó við sjúklingana og sérfræðingana. Þetta er mikil skipulagning og utanumhald gagna. Að baki hverri komu sjúklings liggur mikil vinna hjá okkur og oft er það þannig að þó við vinnum mikið með gögn viðkomandi sjúklings þá hittum við hann aldrei. En í öðrum tilfellum getum við hins vegar þurft að aðstoða sjúklinga með leiðbeiningum um næstu skref í þeirra ferli eða annað slíkt. Starfið er því orðið mjög viðamikið í dag og fjölbreytt,“ segir Barbara Arna.