- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
Stjórn Kjalar stéttarfélags samþykkti á fundi sínum að fela BSRB samningsumboð til kjaraviðræðna við Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem BSRB. Eins og áður hefur komið fram hefur slitnað upp úr kjaraviðræðum Kjalar stéttarfélags sem er í samfloti.
Staðan er því sú að á hádegi í dag, miðvikudaginn 26. apríl, hefjast atkvæðagreiðslur um verkfallsaðgerðir vegna kjaradeilu ellefu aðildarfélaga BSRB við Samband íslenskra sveitarfélaga.
Fyrstu verkfallsaðgerðir eru áformaðar í Kópavogi, Garðabæ, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ þar sem starfsfólk leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila mun leggja niður störf, verði það niðurstaða atkvæðagreiðslnanna. Kosningu lýkur á hádegi á laugardag og niðurstöður verða kynntar í kjölfarið.
Kjaradeilan snýr að sameiginlegri kröfu félaganna um að starfsfólk sveitarfélaga, sem vinna m.a. á leikskólum, grunnskólum, sundlaugum, íþróttamiðstöðvum og þjónustu við fatlað fólk fái sömu laun fyrir sömu eða sambærileg störf innan sömu stofnunar eða sveitarfélags og aðrir hafa þegar fengið frá 1. janúar. Þar sem Samband íslenskra sveitarfélaga neitar að leiðrétta augljósa mismunun á launum starfsfólks, og fundir með ríkissáttasemjara hafa engu skilað, er næsta skref að félagsfólk greiði atkvæði um verkfallsaðgerðir svo knýja megi viðsemjendur okkar til samninga.
Verði verkfallsboðun samþykkt verður fyrsta lota þeirra 15. og 16. maí í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum Kópavogs, Garðabæjar, Seltjarnarness og Mosfellsbæjar.
„Þessi staða kemur okkur mjög á óvart enda fórum við fram með mjög hófsamar kröfur til skamms tíma. Hins vegar virðist Samband íslenskra sveitarfélaga hafa skilið eftir samningsviljann heima og sýnir starfsfólki sveitarfélaga ótrúlega óbilgirni. Um er að ræða hreina mismunun þar sem fólk sem vinnur jafnvel sömu störf, á sama vinnustað, með sömu starfsheiti er boðið upp á misjöfn kjör. Auðvitað sættir sig enginn við slíkt.“ Segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Fleiri aðildarfélög koma til með að boða til atkvæðagreiðslna á næstu dögum en aðgerðir eru auk þess fyrirhugaðar í Hafnafirði, Ölfusi, Árborg, Vestmanneyjum, Reykjanesbæ og víðar um landið þar til samningar nást.