- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
Félagsmenn sem starfa hjá ríkinu munu fá 105 þúsund króna innágreiðslu 1. ágúst vegna tafa sem orðið hafa á gerð kjarasamninga samkvæmt endurskoðaðri viðræðuáætlun. Viðræður eru í gangið við Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg um framhald kjaraviðræðna. Í endurskoðaðri viðræðuáætlun sem Kjölur og samninganefnd ríkisins hafa gert með sér kemur fram að stefna eigi að því að ljúka gerð nýs kjarasamnings fyrir 15. september, en samningurinn hefur verið laus frá því í apríl.
Í samningaviðræðum sem staðið hafa yfir undanfarið hefur verið unnið að samkomulagi um útfærslu á styttingu vinnuvikunnar, launaþróunartryggingu og fleira. Bæði BSRB sem fer með samningsumboð fh. Kjalar og samninganefnd ríkisins leggja áherslu á að vanda til við þá vinnu.
„Þetta eru flókin mál sem við erum að ræða, sér í lagi útfærslan á styttingu vinnuvikunnar fyrir vaktavinnuhópa. Við viljum gefa okkur góðan tíma í að ræða það enda mikilvægt að ná fram breytingum til að stuðla að bættri heilsu og vellíðan,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Í áætluninni segir að þar sem langt sé síðan kjarasamningar hafi runnið verði greidd innágreiðsla inn á nýja samninga. Því fá starfsmenn ríkisins 105 þúsund króna greiðslu þann 1. ágúst vegna þessara tafa. Upphæðin miðast við fullt starf og fá starfsmenn í hlutastörfum greiðsluna í réttu hlutfalli við starfshlutfall. BSRB gerir eftir sem áður kröfu um að nýir kjarasamningar verði afturvirkir frá 1. apríl. Þá sammælast BSRB og ríkið um það í áætluninni að friðarskylda ríki til 15. september. Hlé verður gert á viðræðum á meðan skrifstofa Ríkissáttasemjara er lokuð í sumar, enda hefur reynslan sýnt að lítið gengur í kjaraviðræðum yfir hásumarið.