- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
„Það sem við horfum aðallega til með sameiningunni er að sækja mikilvæga faglega þekkingu og kunnáttu á t.d. kjarasamningum, stofnanasamningum og ýmsum öðrum atriðum. Við erum einfaldlega ekki í stakk búin í litlu félagi eins og Starfsmannafélagi Fjarðabyggðar til að standa undir þeim kröfum sem gera verður til svona stéttarfélags,“ segir Björgúlfur Halldórsson, fyrrverandi formaður Starfsmannafélags Fjarðabyggðar, en sameining félagsins við Kjöl stéttarfélag var samþykkt á aðalfundi þann 29. september síðastliðinn. Borgandi félagar í Starfsmannafélagi Fjarðabyggðar við sameiningu voru 45.
Kröfur nútímans litlu félagi ofraun
Björgúlfur segir ekkert eitt mál hafa knúið á um sameininguna heldur hafi félagsmönnum fyrst og fremst verið orðið ljóst að svo lítið félag gæti ekki staðið undir þeirri þjónustu sem nútíminn krefst. Björgúlfur segir félagið því hafa tekið að fullu þátt í umræðu félaga sem áður stóðu að samfloti bæjarstarfsmannafélaga um að ganga við viðræðna við Kjöl stéttarfélag um sameiningu.
„Félagið okkar á tvær orlofseignir og getur auðveldlega haldið utan um þann rekstur. En þegar kemur að málum þar sem t.d. væri brotið á félagsmanni hvað varðar kjarasamningsbundin réttindi eða eitthvað slíkt þá horfir málið öðruvísi við. Í slíkum tilfellum erum við upp á náðina komin hjá BSRB eða öðru góðu fólki því við höfum ekki bakland til að standa í slíku. Öll erum við sem höfum verið í stjórn Starfsmannafélags Fjarðabyggðar í 100% vinnu og ég hef verið svo heppinn að hafa mætt skilningi á mínum vinnustað en svona fyrirkomulag getur ekki gengið til lengdar. Ég held að í stéttarfélagsvinnu þurfi fólk líka að hafa talsverða köllun og sökkva sér af lífi og sál ofan í málefnin. Slíkt er ógerlegt samhliða fullri vinnu. Þess vegna sáum við tækifæri í því að sameinast inn í stærra félag og fá þannig það bakland sem þarf,“ segir Björgúlfur.
Þurfum að standa vörð um landsbyggðina
Orlofsmálin segir Björgúlfur að séu viðkvæm í svona ferli og skiljanlega þar sem einstakir félagsmenn hafi í mörgum tilfellum lagt mikla vinnu í orlofshúsin og þau séu þeim kær.
„Ég hef mikinn skilning á þessu en hins vegar eru orlofsmálin aukaatriði þegar allt kemur til alls. Kjaramálin og allt sem þeim tengist eru að sjálfsögðu númer eitt, tvö og þrjú og svo má líka nefna rafræna þróun þjónustunnar sem dæmi um verkefni sem stéttarfélög þurfa að standa fyrir í dag. Lítið félag eins og okkar, sem ekki er með starfsmann né skrifstofu, hefur enga burði í slíkt. Þess vegna var þetta skref sem við urðum að taka. Því til viðbótar finnst mér sannarlega skipta máli að við erum að ganga inn í stórt landsbyggðarfélag. Við verðum að hugsa um hag landsbyggðarinnar, eigum efla hana og styrkja eins og okkur er frekast unnt. Það er ein hlið þessarar sameiningar,“ segir Björgúlfur.