- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
Nú þegar við fögnum baráttudegi verkalýðsins við óvenjulegar aðstæður í heimsmálunum erum við rækilega minnt á gildi hennar. Við höfum þurft að takast í sameiningu á við heimsfaraldur kórónuveirunnar síðustu ár og stöndum nú frammi fyrir afleiðingum stríðsátaka í Evrópu sem ekki sér fyrir endann á. Stríði sem kemur hvað harðast niður á þeim sem minnst mega sín. Á þessum degi sendum við úkraínsku þjóðinni samstöðukveðjur.
Verkalýðshreyfingin hefur alltaf og mun alltaf berjast gegn ranglæti og misskiptingu, enda er sú barátta táknuð með rauða litnum í merki hreyfingarinnar. Við leggjum baráttunni fyrir bættum lífskjörum lið með því að vera í stéttarfélögum og taka þátt í starfsemi þeirra, vera trúnaðarmenn og vera virkir félagsmenn. Við tökum þátt með því að kjósa um forystu okkar félaga. Hafa áhrif.
Kjörorð verkalýðshreyfingar á Íslandi á þessum hátíðisdegi er „Við vinnum“. Við erum fólkið sem skapar verðmæti með okkar daglegu störfum, við höldum hjólum daglegs lífs gangandi; við erum til dæmis stéttirnar sem vorum í framlínu velferðarþjónustunnar og menntakerfisins í gegnum heimsfaraldurinn. Þeim sigrum sem unnust í baráttunni við Covid 19 eigum við þeim stéttum að þakka en ekki útbólgnum kauphöllum eða fjármagnseigendum.
Við viljum ekki samfélag sérhyggju, þar sem hver og einn hugsar aðeins um sjálfan sig og þar sem almennt siðgæði og samfélagsleg ábyrgð er litin hornauga.
Með samstöðu getum við best knúið fram brýnar kjara- og réttindabætur. Það segir sagan okkur. Við landsbyggðarfólk þurfum líka að standa saman og berjast fyrir okkar hagsmunum, hafa áhrif á kröfugerðir og láta til okkar taka í kjaraviðræðum með okkar hagsmunaáherslur. Okkar raddir þurfa að heyrast.
Launafólk heldur samfélaginu gangandi í þessu þjóðfélagi sem er eitt það ríkasta í heimi. Vinnandi fólk og verkalýðshreyfing knýr þjóðfélagið og vinnur sigra. Þannig hefur það alltaf verið.
Við erum sterk vegna þess að við vinnum.