- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
Í október bauð SÍMEY upp á raunfærnimat fyrir starfsfólk íþróttamannvirkja – sundlauga og íþróttahúsa – og hafa starfsmenn. Nú hafa fyrstu starfsmenn íþróttamannvirkja farið í gegnum raunfærnimat og fengu þeir afhennt viðurkenningarskjal.
Raunfærnimat felur það í sér að viðkomandi starfsmaður fær staðfesta sína færni og getur fengið hana metna til styttingar á námi. Raunfærnimatið byggir á því að nám fari ekki bara fram innan formlega skólakerfisins, heldur einnig í hinum daglegu störfum fólks og þannig safnist smám saman í sarpinn mikil færni og reynsla. Þetta þýðir með öðrum orðum að raunfærnimatinu er ætlað að staðfesta færni starfsmanna íþróttamannvirkja í því sem þeir vinna dags daglega.
Eins og almennt gildir um raunfærnimat þurfa starfsmenn íþróttamannvirkja sem hafa hug á því að fara í raunfærnimat að hafa náð 23 ára aldri og hafa starfað við sundlaugarvörslu eða í íþróttahúsi í að lágmarki þrjú ár.
Raunfærnimatið sem SÍMEY býður starfsmönnum íþróttamannvirkja á sér nokkra forsögu. Árið 2011 var gerð námskrá, sem miðaðist við 154 kennslustundir, fyrir starfsfólk íþróttamannvirkja og bar hún yfirskriftina Þróttur. Að þessari námskrá vann Starfsmennt fræðslusetur í samstarfi við stéttarfélagið Kjöl og Akureyrarbæ. Námskráin tók m.a. til samskipta og sjálfstyrkingar starfsmanna íþróttamannvirkja, samskipta við skóla, starfsumhverfis, tölvunotkunar, sjálfsvarnar, hreinsitækni o.fl.
Árið 2018 hæfnigreindi SÍMEY störf starfsfólks íþróttahúsa og sundlauga, á grunni styrks sem SÍMEY fékk frá Fræðslusjóði. Í starfshópi vegna þessa verkefnis voru fulltrúar frá Akureyrarbæ, íþróttamannvirkjum á Eyjafjarðarsvæðinu og Kili stéttarfélagi. Út frá þessum hæfnigreiningum fór SÍMEY í samstarf við Starfsmennt fræðslusetur um endurskoðun á framangreindri námskrá, Þrótti, og voru á síðasta ári unnar nýjar námskrár, annars vegar fyrir starfsfólk íþróttahúsa og hins vegar sundlaugarverði, sem voru sendar til Menntamálastofnunar til yfirferðar og vottunar. Í apríl sl. staðfesti Menntamálastofnun námskrárnar og eru þær nú aðgengilegar á vef Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, sem þýðir að allar símenntunarmiðstöðvar geta nú boðið upp á nám sem byggir á þessum vottuðu námskrám.
Á síðasta ári fékk SÍMEY styrk frá Fræðslusjóði til þess að móta og setja upp raunfærnimat fyrir starfsmenn íþróttamannvirkja þannig að þeir fái metið hæfni sína og reynslu á móti nýju námskránum. Nú í nóvember lauk raunfærnimatsferlinu og tóku 19 aðilar á Eyjafjarðarsvæðinu þátt.
Ingunn Helga Bjarnadóttir hefur ásamt fleiri starfsmönnum SÍMEY komið að þessari námskrárvinnu, hæfnigreiningum, undirbúningi og framkvæmd raunfærnimatsins fyrir starfsfólk íþróttamannvirkja. Ingunn er ánægð með hvernig til hefur tekist í þessari vinnu og segir starfsmenn íþróttamannvirkja á Eyjafjarðarsvæðinu áhugasama að nýta sér boð SÍMEY um að fá raunfærni þeirra metna. Í framhaldinu segir Ingunn að horft sé til þess að SÍMEY bjóði upp á nám fyrir þessa starfsmenn, sem byggi á nýju námskránum fyrir annars vegar starfsfólk íþróttahúsa og hins vegar sundlaugarverði.
Frekari upplýsingar: Raunfærnimat
Hér má sjá myndir af útskriftar hópum frá Akrueyri, Dalvík og Ólafsfirði. Kjölur bauð uppá kökur.
Útskrifarhópur í Fjallabyggð
Útskrifarhópur á Dalvík
Útskrift í SÍMEY Arna Jakobína ávarpar hópinn
Ingunn Helga umsjónaraðili SÍMEY og Hólmfríður stjórnarmaður Kjalar við terturnar á Dalvík :-)