- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
Félagsmenn í Starfsmannafélagi Fjallabyggðar samþykktu samhljóða á aðalfundi félagsins þann 27. október tillögu um sameiningu við Kjöl stéttarfélag. Guðbjörn Arngrímsson, sem verið hefur formaður félagsins allt frá stofnun þess árið 1983, þegar það hét Starfsmannfélag Ólafsfjarðar, segist hæstánægður með þessa niðurstöðu og sameininguna. Það að sjá Kjöl verða að stóru og öflugu stéttarfélagi opinberra starfsmanna á landsbyggðinni sé fagnaðarefni. Í heild voru 108 félagar í Starfsmannafélagi Fjallabyggðar við sameininguna, þar af um 80 greiðandi fastir starfsmenn.
Fámenn félög vanmáttug
„Í dag er nánast útilokað fyrir svona fámennt félag að halda úti þeirri þjónustu sem þarf. Síminn minn og heimili hafa verið skrifstofa félagsins seinni árin en meðan ég var að vinna í grunnskólanum fékk ég að nota þar aðstöðu í þágu félagsins. Öðruvísi hefði þetta ekki verið hægt,“ segir Guðbjörn og bætir við að á sínum tíma hafi bæjarstjórn Ólafsfjarðar verið mjög áfram um stofnun bæjarstarfsmannafélags og stutt við bakið á félaginu með aðstöðu án endurgjalds.
„En umhverfið hefur breyst mikið, bæði hvað varðar t.d. kjarasamningamál og réttindagæslu í kringum þau. Þetta er orðið flóknara og viðameira og þá þarf stærri og öflugri stéttarfélög. Við Jakobína, formaður Kjalar, höfum átt samfylgd í þessum málefnum í mjög mörg ár, meðal annars í kjarasamningagerð, og fyrir okkur í félaginu var það ekki spurning hvort af sameiningu við Kjöl yrði heldur bara hvenær.“
Sterkari saman
Guðbjörn segir það lengi hafa verið sér keppikefli að víðtæk sameinining stéttarfélaga opinberra starfsmanna á landsbyggðinni verði að veruleika.
„Aðildarfélög BSRB úti á landi eru flest fámenn og við getum lítið gert nema sameinuð. Ég er þess vegna mjög glaður með þennan stóra áfanga sem við erum að ná,“ segir Guðbjörn og nefnir að fyrir utan faglegt bakland í stóru félagi standi félagsmönnum til boða mikið úrval orlofskosta, bæði íbúða og húsa.
„Síðan er æ stærri hópur fólks sem kýs það sem við köllum orlof að eigin vali og fær þá ákveðinn stuðning til ferðalaga á eigin vegum, gjarnan erlendis. Þessi valkostur nýtur sífellt meiri vinsælda,“ segir Guðbjörn.