- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
segir Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar, að loknum sameiningum félagsins við fjögur stéttarfélög á landsbyggðinni
„Með þessum sameiningum erum við að ná því markmiði sem við settum okkur þegar við hófum um aldamótin að ræða um að sameina starfsmannafélögin á landsbyggðinni í stórt félag. Sú vinna leiddi til þess að Kjölur varð til árið 2004. Ég neita því ekki að ég hefði auðvitað óskað þess að þetta hefði gerst hraðar en er mjög ánægð með að þessum áfanga er nú náð,“ segir Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu, um sameiningu félagsins við fjögur önnur stéttarfélög á landsbyggðinni sem nú eru orðnar að veruleika.
Mikil breyting á félaginu
Arna Jakobína segir umtalsverða breytingu verða á starfsemi Kjalar stéttarfélags með þessari stækkun þess. Skrifstofur félagsins verða nú þrjár og fyrrverandi formenn félaganna fjögurra hafa tekið stæti í stjórn Kjalar.
„Ásýnd félagsins breytist, félagsmönnum fjölgar umtalsvert, félagið hefur meiri burði til að veita félagsmönnum þjónustu og þróa hana, t.d. upplýsingamiðlun og rafræna þjónustu. Sama á við um réttindagæslu, aðstoð við félagsmenn þegar upp koma álitaefni um réttindamál, kjarasamningagerð, starfsmenntamál og margt fleira. Fyrst og fremst tel ég þetta vera stórt skref fyrir félagsmenn Kjalar,“ segir Arna Jakobína.
Áhugi á félagsstarfinu eykst
Þegar Kjölur stéttarfélag var stofnað árið 2004 sameinuðust fimm bæjarstarfsmannafélög á Norður- og Vesturlandi og árið 2014 bættist Starfsmannafélag Skagafjarðar við. Að meðtöldum sameiningunum á síðustu vikum hafa því 10 stéttarfélög sameinast inn í Kjöl stéttarfélag.
„Í ljósi reynslunnar er ég þess fullviss að þessar sameiningar efla stéttarvitundina og auka áhuga fólks á að taka þátt í starfi Kjalar. Það sjáum við til dæmis greinilega í hópi okkar öflugu trúnaðarmanna. Þegar allt kemur til alls þá snúast svona sameiningar um að fólk er að sækjast eftir meiri þjónustu í öllu því sem stendur félagsmanninum næst. Ég skynjaði mikla jákvæðni í gegnum viðræður og kynningarfundi með þessum fjórum félögum og fann að fólk var mjög svo tilbúið að stíga skrefið þegar það hafði fullvissu fyrir því að það héldi sínum réttindum óskertum,“ segir Arna Jakobína.
Verkefni næstu mánaða kortlögð
Þó sameiningarnar sem slíkar séu formlega að baki er talsverðri vinnu sem þeim tengist ólokið. Líkt og fram kemur í blaðinu hafa nýir trúnaðarmenn komið til starfa, sem og fjórir nýir stjórnarmenn sem áður gengdu formennsku í félögunum fjórum.
„Stækkuð stjórn Kjalar hefur þegar fundað og við höfum sett niður verkefnaáætlun fyrir komandi vikur og mánuði. Allt miðar þetta að því að nýta þetta tækifæri sem best fyrir félagsmenn og félagið sjálft, beina kröftum okkar í einn og sama farveg. Ég er því full tilhlökkunar að vinna að þeim spennandi verkefnum sem bíða á komandi mánuðum,“ segir Arna Jakobína.