- Kjarasamningar
- Styrkir
- Orlofsmál
- Um Kjöl
BSRB kallar eftir því að stjórnvöld tryggi afkomu fólks sem getur ekki sótt vinnu vegna skerts skólastarfs eða undirliggjandi sjúkdóma á meðan COVID-19 faraldurinn gengur yfir. Þá verður að hækka atvinnuleysisbætur og tryggja afkomu þeirra sem ekki eiga rétt á bótum með tímabundnum undanþágum, að því er fram kemur í ítarlegum tillögum BSRB vegna heimsfaraldursins sem sendar hafa verið stjórnvöldum.
Í tillögunum er lögð áhersla á að aðgerðir stjórnvalda vegna faraldursins stuðli að því að bæði félagslegum og efnahagslegum stöðugleika verði viðhaldið. Þar segir að grípa þurfi til aðgerða með jafnrétti að leiðarljósi til að tryggja afkomu fólks og ganga enn lengra en þegar hafi verið gert í stuðningi við heimilin. Tillögurnar miða einnig að því að auka eftirspurn í hagkerfinu og tryggja heilbrigði, velsæld og framleiðni til lengri tíma.
BSRB leggur mikla áherslu á að stjórnvöld tryggi afkomu foreldra sem ekki geti sótt vinnu vegna skerðinga á skólahaldi eða þjónustu við börn, geti foreldarnir ekki sinnt starfi sínu í fjarvinnu. Þar megi til dæmis líta til Noregs, þar sem greiðslur vegna veikinda barna voru tvöfaldaðar. Þá leggur bandalagið til að þeir sem þurfa að halda sig heima vegna undirliggjandi sjúkdóma þeirra sjálfra eða barna þeirra fái greiðslur sambærilegar við þær sem tryggðar hafa verið fyrir fólk í sóttkví.
Þá leggur bandalagið til að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar þannig að þær fylgi launahækkunum kjarasamninga. Að sama skapi þurfi að tryggja afkomu launafólk sem hvorki eigi rétt til launa né réttindi í samtryggingarsjóðum með tímabundnum undanþágum á atvinnuleysistryggingalöggjöfinni.
Í tillögum BSRB er lögð áhersla á að fyrirsjáanlegum hallarekstri á ríkissjóði og sveitarfélögum verði ekki mætt með niðurskurði á opinberri þjónustu. Frekar ætti að fjárfesta í bættri opinberri þjónustu á sama hátt og fjárfest er í vega- og byggingarframkvæmdum til að skapa störf.
Hér má finna tillögur BSRB að aðgerðum vegna óvissu í tengslum við heimsfaraldur COVID-19.