Yfirgnæfandi meirihluti félaga samþykkti boðun verkfalls í atkvæðagreiðslu

Yfirgnæfandi meirihluti systurfélaga Kjalar stéttarfélags, í fjórum aðildarfélögum BSRB, í Kópavogi, Garðabæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi, samþykkti boðun verkfalls í atkvæðagreiðslu sem lauk nú á hádegi. Fyrstu verkfallsaðgerðir munu hefjast mánudaginn 15. maí, náist samningar ekki fyrir þann tíma.

Í Kópavogi samþykktu 91,83% verkfallsboðun.
Í Garðabæ samþykktu 97,26% verkfallsboðun.
Á Seltjarnanesi samþykktu 100% verkfallsboðun.
Í Mosfellsbæ samþykktu 96,83% verkfallsboðun.

Þátttaka var mjög góð í öllum sveitarfélögum eða frá 66% og upp í 86%.

„Af þessum niðurstöðum að dæma er ljóst að fólkinu okkar er misboðið og það muni ekki sætta sig við þá mismunun sem að Samband íslenskra sveitarfélaga býður upp á,“ sagði Sonja um niðurstöður atkvæðagreiðslunnar.

Atkvæðagreiðslur um verkfall hófust í sex sveitarfélögum til viðbótar á hádegi í gær og lýkur á hádegi næsta fimmtudag. Ef öll félögin kjósa með verkfallsboðun munu verkfallsaðgerðirnar ná til tíu sveitarfélaga þar sem um fimmtán hundruð starfsmenn í leik- og grunnskólum, frístundarmiðstöðvum, mötuneytum og höfnum munu leggja niður störf þar til réttlát niðurstaða fæst.


Hvenær verða verkföllin?
Starfsfólk Kópavogs, Mosfellsbæjar, Garðabæjar og Seltjarnarness mun hefja verkfallsaðgerðir 15. og 16. maí. Starfsfólk Hafnafjarðar, Ölfus, Reykjanesbæjar, Árborgar, Hveragerðis og Vestmanneyja mun bætast í hópinn í vikunni á eftir, fari atkvæðagreiðslur á þann veg, og eru verkföll fyrirhuguð 22., 23., 24. 25. og 26. maí, 5,. 6., 7., 8., og 9. Júní í þessum tíu sveitarfélögum. Náist ekki að semja fyrir þann tíma verða frekari atkvæðagreiðslur boðaðar hjá félögunum og þá verða jafnvel fleiri hópar undir.


Spurningum svarar Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í síma 661-2930 og Freyja Steingrímsdóttir, samskiptastjóri BSRB í síma 616-7498.